Færsluflokkur: Bloggar

Bráðum kemur betri tíð eða hvað?

Júlíus Vífill er enn og aftur komin í forsvar fyrir menntamál borgarinnar og hefur tjáð sig um ástandið í skólum.  Hann er sammála því að orsök manneklu sé léleg laun og ef að við viljum hafa góða skóla þurfi að greiða kennurum hærri laun.  Að þessu sjáum við að hann stendur með okkur eða hvað.  Ég er nú ekki svo sannfærð en reyni að vera bjartsýn.  Ég veit að til eru peningar til að borgar hærri laun, viljinn er fyrir hendi og fordæmi eins og sést á launahækkun til stundarkennara. En það var einhliða ákvörðun launanefndar seint í haust að tímakaup stundarkennara hækkaði úr 1400 kr á tímann í 2400 krónur.  Þannig að ef stundarkennari er ráðinn þá er hann á hærra kaupi en grunnskólakennari með 10 ára starfsaldur 2400 *26 kennslustundir á viku *4 vikur = 249600 á mánuði. En aldur og menntun skiptir ekki máli.  Ef þetta hefur viðgengst í vetur þá hljóta þeir að geta hækkað laun mín umtalsvert í vor.

Lifið heil

Rósa ráðvanda 


Réttur brotinn á nemendum vegna.......

Á forsíðu Fréttablaðsins í gær er frétt um manneklu í Grunnskólum Reykjavíkur og var einn skóli sérstaklega nefndur.  Þar þarf að skerða stundartöflur nemenda vegna kennaraskorts. Rætt er við Ólaf Loftsson formann Félags grunnskólakennara um ástandið og kemur hann inn á að þetta hafi verið fyrirsjáanlegur vandi eins og ég hef nokkrum sinnum bent á.  En réttur nemenda er brotinn vegna þess að þeir fá ekki þann kennslustundafjölda sem kveðið er um.  En þá spyr ég á móti er réttur nemenda ekki brotinn þegar verið er að redda skorti á kennurum  með hinum og þessum .  Hvernig er þetta þar sem ekki fæst réttindafólk til starfa og ráðnir eru þess í stað einstaklingar með "góða" menntun.  Er ekki verið að brjóta á rétti nemenda?  Í mörgum skólum hafa kennarar og jafnvel annað starfsfólk bætt á sig vinnu til að "hafa ofan af " fyrir nemendum er ekki verið að brjóta á rétti nemenda til lögboðinnar kennslu með þessum reddingum? Í athugun sem gerð var í skólum borgarinnar nú í janúar kom í ljós að aðeins 17 skólar af 38 eru fullmannaðir, hvað þýðir það að vera fullmannaðir skólar?  Er þá réttindafólk í öllum stöðum og enginn að vinna meira en hann ætlaði sér í upphafi skólaárs eða eru þeir kannski enn færri skólarnir sem eru "fullmannaðir". Ég tek undir orð Ólafs um að staðan sé slæm en að hún eigi eftir að versna ef náist ekki að semja strax í vor. 

Lifið heil

Rósa raunamædda


Horft fram á veginn

Jæja þá hef ég lengið undir feld of lengi og mál til komið að skella sér á fætur og undirbúa andann fyrir komandi kjaraviðræður.  Eftir langvarandi tölvuleysi hef ég átt við rifstíflu og framkvæmdarkvíða að stríða en þetta gengur ekki lengur og með hækkandi sól á birtir til í sálinni.  Fréttirnar í 24 stundum í dag um að sérsamningar kennara við einstök sveitafélög gætu verið inn í myndinni í komandi viðræðum boðar spennandi tíma fram undan.  En hvort þetta sé eitthvað sem segir til um innihald þegar við borðið er komið er ekki gott að segja.  Reyndar hef ég ekki trú á því að sérsamningur við kennara í Reykjavik verði innihaldsríkir því Reykjavíkurborg hefur verið það sveitafélag sem helst hefur haldið að sér höndum þegar svona mál koma upp því flestir vilja búa og starfa hér á þessu svæði.  Og ekki geri ég ráð fyrir miklum tekjuafgangi hjá borginni þegar svo margir borgarstjórar eru á háum launum.

....og aldrei það kemur til baka

Já ágætu vinur um leið og ég óska ykkur árs og friðar horfi ég á brennuna út um gluggann hjá mér, degi of seint en vonandi erum við að brenna gamla árið en ekki það nýja.  Við höfum átt róleg og skemmtileg jól og áramót og  nokkuð laus við tölvur þar sem allar tölvur á heimilinu hrundu rétt fyrir jól en það kom ekki að sök við borðuðum meira, lásum meira og horfðum meira á sjónvarpið. Stórfjölskyldan gat verið saman um ármótin þar sem veiku börnin voru orðin frísk og vonandi gefur það okkur fyrirheit um það sem sem árið ber í skauti sér.  Ég ætla auðvitað að reyna að verða betri manneskja á nýju ári, verða besta útgáfan að mér sjálfri til þessa. 

Lifið heil

Rósa


Á villugötum með lestrarkennslu

Eru íslenskir skólar á villugötum í sambandi við lestrarkennslu?  Í nýlegri PISA könnun kemur fram að íslenskir nemendur standa sig ekki nógu vel í lesskilningi.  Þetta kemur mér ekki mikið á óvart þar sem ég hef lengi haft áhyggjur af lestri nemenda eftir að hinu eiginlega "lestrarnámi" lýkur.  En hvenær lýkur því.  Það er svo  önnur spurning.  Lýkur því þegar nemendur hafa náð tækninni að tengja saman hljóð  og bókastafa og geta lesið orð og síðan setningar.  Eða lýkur því kannski aldrei.  Mjög algengt er að þegar nemandi hefur náð leshraða upp á 8 eða er kominn í 5. bekk þá er ekkert á dagskrá sem kallast getur lestrarnám þó gefinn sé tími til lestrar.  Rósa Eggertsdóttir sérfræðingur á skólaþróunarsviði á Akureyri var í viðtali í fréttatíma sjónvarpsins í gær og hún segir Íslendinga ekki vera í takt við fræðaheiminn.  Hún segir að aðferðir sem notaðar eru séu ekki nógu góðar.  Nauðsynlegt er að staldra við og breyta viðhorfi og kennsluháttum.  En ég hvet ykkur til að hlusta á þetta viðtal:http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338519/7

Lifið heil

Rósa á rauðklædda


Laun kennara

Ég fór á jólahlaðborð í gær bara nokkuð gaman, þarna voru um 170 vinnufélagar og makar. Ég þekkti fáa en reyndi að vera kurteis og spjalla.  Eitthvað virkaði ég kennaraleg í fasi þó ég hafi reynt að forðast það, ég legg mig fram við að tala um eitthvað annað en kennslu og laun kennara á mannamótum en stundum tekst það bara ekki.  Nema þarna var kona sem ég fór spjalla við og reyndist hún vera kennari.  Hún sagði svolítið merkilegt.  Hún  er um fimmtugt, leikskólakennari í byrjun og ákvað svo fyrir 10 árum að skella sér í Kennó og bæta við  sig námi til þess að öðlast réttindi sem grunnskólakennari.  Hún kláraði prófið og hóf kennslu í grunnskóla hér í borginni fyrir um 6 eða 7 árum.  Þetta var munur fyrir hana þar sem hún hækkaði í launum.  Ánægð með sig undi hún hag sínum vel en svo tók að fjara undan.  Ef hún ákveður í dag að fara aftur inn á leikskólann þá hækkar hún í launum um ein 20 - 30 þúsund  mánuði.  Þetta hefur gerst á  aðeins6 til 7 árum.  Er þetta eðlilegt eða hvað.  Ég fagna því að leikskólakennarar hafa náð fram meiri kjarabótum en harma það um leið að grunnskólakennara sitji eftir.  Eitthvað þarf að gera en það er bara spurning hvort vilji og geta sé til staðar.

Lifið heil

Rósa


5,6% kaupmáttarrýrnun kennara

Frá því um ársbyrjun 2005 hefur almennur kaupmáttur launafólks aukist  um 8% en verðlag hækkað um 14%. Á sama tíma hafa laun kennara hækkað um 7,5% sem þýðir kaupmáttur launa hefur rýrnað um 5,6%.  Og á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 22%.  Þetta segir allt sem segja þarf og veit ég að launanefnd KÍ hefur þetta í huga þegar kröfur kennara verðar settar fram fyrir komandi kjaraviðræður.  Enn og aftur stöndum við í sömu sporum og hef ég það á tilfinningunni að fyrir hver 2 skref sem við förum áfram þá förum við 3 aftur á bak.

Lifið heil

Rósa


Menntamálaráðherra og laun kennara

Síðasta verkfall grunnskólakennara eru mörgum enn í fersku minni.  Það var of langt, leiðinlegt og skilaði litlu.  Ég man eftir viðtali sem tekið var við háttvirtan menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu, en þá var langt liðið á verkfallið og hún spurð hvort hún þyrfti ekki að kippa í spotta og stoppa þetta.  Hún svaraði því til að launamál kennara og ástandið sem skapaðist í þessu verkfalli kæmi henni bara ekkert við.  Nú leggur hún til fjögur frumvörp til alþingis um skólamál og er eitt þeirra um menntun kennara.  Í því kemur fram að kennara eigi að hafa 5 ára háskólanám að baka.  Grunnskólakennaranám er nú 3 ár þannig að hér bætast við 2 ár. Þetta á að gerast á nokkrum árum þannig að hægt sé að aðlaga þetta að þeim sem annast menntun kennara og eflaust opna fleiri möguleika fyrir hina sem eru með gamalt próf.  En til þess að laða fólk í 5 ára háskólanám sem lýkur með kennsluréttindum í grunnskóla þarf að koma til veruleg launahækkun kennara.  Þegar Þorgerður var spurð út í þetta á dögunum, taldi hún að það hlyti bara að gerast.  Mér finnst einhver skítalykt af þessu öllu saman.  Alveg get ég verið sammála um að breyta þurfi kennaramenntuninni en það þarf nú þegar að hækka laun kennara miðað við þá menntun og reynslu sem kennara hafa í dag en ef krafist verður 5 ára náms þá þurfum við eitthvað annað en verulegar launahækkanir. Ég er ekki viss um að auðvelt verði að ráða kennara til starfa með 5 ára háskólapróf ef við getum boðið honum 220.000 á mánuði eða hvað haldið þið.

Lifið heil

Rósa


Námsferðir

Pantaðu aðventuferð í Alviðru nú fyrir jólin, komdu á jólasýningu í Árbæjarsafn, fáðu leikhóp í skólann....... Svona hljóða tilboð sem berast okkur kennurum þessa dagana eins og reyndar alla aðra.  Þetta er allt frekar skemmtileg ef ekki þyrfti að greiða fyrir þetta.  Nú má ekki lengur rukka nemendur/foreldra  þar sem þetta telst vera hluti af námi og nám er skylda sem ekki á að greiða fyrir.  Þessar skemmtilegu ferðir eða viðburðir geta kosta nem. frá 500 til 3000 krónum, skólar geta  ekki boðið upp á þessa tilbreytingu í námi nema í litlu mæli.  Það kæmi mér ekki á óvart að skólabúðir úti á landi verði lagðar niður þar nema tilkomi fjáröflun.  Það er samt eðlilegt að rukka fyrir mat þann sem nemendur borða í skólanum.  Skóladagurinn er venjulega frá 8:10 til 14:30 og verða nemendur að koma með nesti að heiman eða að kaupa mat á staðnum.  Þar sem nemendur eru skyldugir til að vera í skólanum þennan tíma væri þá ekki ráð að bjóða upp á mat þannig að öruggt væri að allir væru með mettan maga og tilbúnir í verkefni dagsins. Það mætti vera hafragrautur við komuna í skólann, ávaxtatími um 10 og svo hollur og góður hádegismatur.  Nógu háir eru skattarnir.

Lifið heil

Rósa


Kennaranemar

Hjá okkar hafa verið kennaranemar undanfarið. Annars vegar 2 ungar konur sem eru á síðustu metrum námsins og hins vegar þriggja manna teymi sem hefur fengið skólann úthlutað sem sinn skóla og munu sækja til okkar visku og reynslu á næstunni.  Fyrra teymið var hjá okkur í nokkrar vikur og gaman var að spjalla við þær um nám og starf.  En þær sögðu okkur frá því að í þeirra útskriftarhópi vissu þær ekki um neinn sem væri staðráðinn í því að fara í kennslu um leið og námi lyki.  Margir ætluðu í frekara nám en aðrir ætluðu að fá sér góða vinnu.  Svo er spurning hvort þetta sé ákvörðun sem nemarnir tóku áður en þeir hófu nám  eða á meðan á náminu stóð.  Éru of fáir af nýútskrifuðum kennurum sem skila sér í kennslu? Eru það aðeins launin sem fælir fólk frá þessari vinnu? Er það fjölmennur hópur sem endist stutt í kennslu? Þegar stórt er spurt er fátt um svör.

 Hitt teymið var aðeins hjá okkur í viku og eru þau á fyrsta ári.  Þeim kom á óvart að enginn af okkur reyndi að vara þau við  því að leggja kennslu fyrir sig því skólafélagar þeirra sem voru nemar í öðrum grunnskólum höfðu flestir þá reynslu.

Lifið heil

Rósa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband