Færsluflokkur: Menntun og skóli

Jelgava dagur 3

Í dag byrjuðum við á því að skreppa hér út í skautahöllina sem er sambyggð hótelinu en þar byrja nokkrir krakkar skóladaginn um kl. 8.  Strákarnir voru á íshokkíæfingu á meðan stelpurnar voru á listskautum.  Síðan fara þau í skólann.  Þegar upp í skóla var komið fórum við Svanur í keilutíma sem var að þessu í skólanum ekki í keilusal.  Þetta var yogatími en þau sem eru í keilubekknum fá einn jógatíma á viku.  Frábær tími og gaman að fylgjast með þessum 8 ára einbeittu krökkum. Eftir stuttar frímínútur fórum við Þura í trúarbragðafræði.  Við vissum ekkert hvers konar tími þetta yrði og hann kom okkur á óvart.  Stofan var um 10 fm. Og  aðeins 6 krakkar.  Kennarinn las upp úr biblíunni og krakkarnir fylgdust með í sinni. Síðan var spurt og spjallað og þau gerðu litla æfingu ásamt því að hlusta á lestur nútíma sögu sem var í tengslum við biblíutextann.  Í upphafi og lok tímans var farið með bæn.  Foreldrar velja hvort nemendur fá kristinfræðikennslu og á meðan þau eru í þessum tíma eru bekkjarfélagar þeirra í almennri siðfræði.  Í kaffitímanum í dag fengum við bolludagsbollur og Björg var himinlifandi. 

Eftir þetta fórum við á sal en í heimsókn kom hópur frá Fun Song en það er fyrirtæki í Bretlandi sem heldur út heimasíðu og námskeiðum fyrir enskukennara með áherslu á söng og leik.  Þetta var virkilega skemmtilegt og minnir okkur á hvað leikur í skólastarfi er mikilvægur. 

Síðan var haldið í Workshop hjá henni Gunta.  Hún kynnti fyrir okkur kennsluaðgerðina CLIC eða Content language intergrated learning eða tvíþætt nám. Í stuttu máli má segja að CLIL sé yfirheiti yfir ýmsar skyldar aðferðir sem leggja áherslu á að samþætta kennslu í námsgreinum og tungumálum, s.s. „bilingual content teaching" og „contentbased language teaching". Það sem hér er átt við er að námsgrein og tungumál eru samþætt, t.d. saga og þýska eða landafræði og enska, þannig að kennt er á erlenda málinu en báðar greinar vega jafnt, bæði hvað við kemur markmiðum, innihaldi og mati. Talað er um CLIL sem aðferð en ekki sem aðferð í tungumálakennslu eingöngu, heldur er lögð jöfn áhersla á bæði tungumálið og hina námsgreinina. Tungumálið er inntak miðilsins. Það má segja að CLIL felist í eftirfarandi: „Teaching a subject through a foreign language, not in a foreign language". Það er mjög mikilvægt að bæði greinin og tungumálið standi jafnfætis.

Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt og margt af því sem hún fór í erum við að gera í tengslum við Byrjendalæsi.  En enn og aftur vorum við minnt á það hversu mikilvægt er að brjóta upp kennslu með leikjum og þrautum hvort sem það tengist námsefninu eða ekki.

Eftir hádegismat var haldið áfram og síðan enduðum við á þjóðminjasafninu en þá voru allir frekar þreyttir. 

Eftir að hafa skolað af sér far farið út að borða og enn og aftur þriggja máltíð með svínakjöti í aðalrétt.  Þegar við komum heim á hótel þá undirbjuggum við kennslu morgundagsins og í háttinn snemma.

Lifi heil

Rósa


Jelgave

Eftir langan dag lentum við loks í Riga í Lettlandi mánudaginn 1. mars og þar beið okkar fríður hópur kennara.  Við upp í rútu og leiðin lá til Jelgave, fjórðu stærstu borgar Lettlands sem er um 40 km frá Riga.  Klukkan var um 6 þannig að allt var í myrkri og við sáum lítið á leiðinni.  Hótelið okkar er rétt við borgarmörkin, íþróttahótel með keilusal og íshokkísvelli.  Þetta er svona meira eins og farfuglaheimili en hótel, með engum mínibar eða hárblásara.  Eftir að hafa skellt töskum upp á herbergi var farið í mat, þriggja rétta matur salat, snitsel og búðingur, heitt hvítvín og svo í koju.  í dag þriðjudag þá vöknuðum við spræk klukkan 7  og í morgunmat, eitt egg og smá skinka, Jóhanna mín Ingimars hefði verið sátt. Svo upp í bus og í skólann. F´Fórum á sal og hlustuðum á frábæran skólakór, sáum dans og heyrðum píanóleik og einsöng.  En hér velja krakkarnir  eða foreldrar þeirra í hvernig bekk börnin eiga að vera frá því í 1. bekk.  Þau geta valið að vera í dansbekk eða í íþróttabekk og þá er hægt að velja keilu, sund eða skauta.  Þá  tók við heimsókn í tíma og við Þuríður byrjuðum á því að fara í tíma í 1. bekk þar sem verið var að vinna þemavinnu um árstíðirnar.  Þetta var mjög skemmtilegt, kennarinn var virkur allan tímann og gaf nemendum allt sem hún átti.  Hún var með innlögn, deildi verkefnum, spurði spurninga, lét þau vinna í hópum, var með samlestur á texta sem nemandi hafði skrifa og hún varpaði upp á gagnvika töflu af bókvarpa. (En bókvarpar og gagnvirkar töflur eru í 12 kennslustofum hér), braut upp kennslustundina með leik, var með framsögn og allt gekk upp.  Eftir þetta var kaffi hjá okkur fyllt horn og möndlukaka, Takið endilega eftir því hvað við borðum mikið hér.  Eftir kaffi fórum við Svanur í tæknitíma en það var einhver misskilningur hjá okkur því þetta var svona samþætt verkefni þar sem 4 námsgreinar eru samþættar, stærðfræði, móðurmál, samfélagsfræði og náttúrfræði.  Þau voru að vinna með hafið og kennarinn studdist með kennsluleiðbeiningar í samþættingu þessara námsgreina.  

Hádegismaturinn var framreiddur í skólanum og að þessu sinni fengum við snitsel með súrum gúrkum og uppstúf.  Búðingur í eftirmat.  Eftir hádegið var farið í heimsókn í Höll Jelgave.  Byrjað var að byggja þessa höll árið 1738 og þá sem heimili Hertogans af Kúrland og var meistarastykki rússneska arkitektsins Rastrelli. Þessi höll er stærsta minnismerki um arkitektúr í Eystrasaltsríkjunum. Við sáum þarna litið safn, fórum í kjallarann sem geymir gamlar líkkistur og  búninga.  Við enduðum á því að heyra kynningu á landbúnaðarháskólanum í Jelgave sem nú er staðsettur í skólanum. 

Eftir þetta fórum við aftur upp í skóla.  Þar hittum við aðstoðarborgarstjórann og hann sagði okkur allt sem við þurfum að vita um Jelgave. Eins og áður sagði er þetta fjórða stærsta borg Lettlands og hér búa um 66.000 manns.  Hér eru 27 skólastofnanir, grunnskólar, leiksólar, unglingaskólar og listaskóla.  Þeir leggja mikið upp úr menntun og hafa undanfarið fjárfest í menntun eins og Finnar.  Hér leggja þeir áherslu á íþróttir og listgreinar og geta nemendur valið og fengið það metið inn í skólann.  Hér mæta margir nemendur á íþróttaæfingu kl. 8 og svo í skóla þar á eftir en heima á Ísland þurfa margir krakka sem eru farnir að æfa á miklu krafti að mæta á æfingar kl. 6 og svo í skólann kl. 8. 

 

Eftir að hafa farið á kaffihús og fengið tertusneið, snittur og ávexti var frjáls tími til að skoða sig um í bænum.  Við Millý, Mollý og Mandý og Svanur auðvitað  fórum í Moll.  Ekki var það spennandi eyðsla á tíma, ekkert sem freistaði og um kl. 18 sóttu bílsjórinn okkur.  Við fengum svo 15 mín til að gera okkur klár í kvöldmat.  Við borðuðum aftur á hótelinu, að þessu sinni svínakjöt í eplasósu og ís í eftirmat ásamt heitu hvítvíni. Ég er búin að fatta af hverju hvítvínið er heitt. Það er svo við drekkum minna.  Eftir matinn þá var stóra stundin runnin upp. Keilukeppni milli landanna.  Þetta var snilld. Við mössuðum þetta auðvitað, bara best.  

Lifið heil

Rósa 

 

 


Jón og vinir hans

Í fyrramálið held ég til Portúgals ásamt þeim Hlíf og Jóhönnu Þórunni samstarfskonum mínum.  Við erum að fara á fund í sambandi við Comeníusarverkefni sem við tökum þátt í.  Verkefni ber yfirskriftina Johnny and his seven friends.  Fundurinn verður haldin í Fundao sem er lítil borg í miðju landinu.  Við byrjum á því að fljúga til London og síðan til Lissabon.  Ég ætla mér að senda inn fréttir hér á vefnum ykkur hinum til fróðleiks og upplýsingar.  Segja ykkur hvað við sjáum merkilegt og hvernig gengur. 

Þangað til getið þið lesið um verkefnið á þessum tengli. 

Lifið heil

Rósa rúsína


Kraftaverkakennarar

Skólavarðan, málgagn Kennarasambands Íslands kom inn um lúguna hjá mér rétt fyrir helgi.  Að venju eru margar góðar greinar í blaðinu og mig langar að vekja athygli á einni þeirra.  Þetta er grein með yfirskriftinni - Þetta má ekki verða betra- ekki fyrir þennan pening - og er eftir Gylfa Jón Gylfason yfirsálfræðing á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Í greininni hugsar Gylfi Jón til baka og rifjar upp sína skólagöngu í barnaskóla og ber  saman við það sem er að gerast í skólum í dag.  Hann talar með virðingu um Siggu sem kenndi honum, um andrúmsloftið, umhverfið og kennsluhættina.  Gylfi Jón á oft erindi inn í kennslustofur í dag og segir að þó markmiðin séu þau sömu hefur allt annað breyst. Það er erfiðara að halda uppi aga, það tekur lengri tíma að ávinna sér virðingu, nemendur leyfa sér meira en þeir gerðu hér áður. Margir nemendur upplifa það sem afskiptasemi af hálfu kennara að ætlast til að þeir hlýði og fá stuðning frá foreldrum. Starf kennarans hefur breyst gríðarlega á undanförnum áratugum um leið og breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu.  Það er erfiðara að vera kennari en áður.  Gylfi Jón telur að þær eðlisbreytingar sem orðið hafa á stafi kennarans hafi enn ekki verið nægilega metnar til launa. Margir kennara vinni  kraftaverk á of  lágum launum.  Þetta er góð grein sem ég hvet ykkur til að lesa.  Ég vildi gjarnan sjá þessa grein í Mogganum því hún á erindi til allra ekki bara kennara.

Hér má nálgast greinina.

 

Lifið heil

Rósa  


Til hamingju með afmælið Árbæjarskóli

Árbæjarskóla á afmæli í dag, 40 ára og ber aldurinn vel.  Ég fór á opið hús, alltaf gaman að koma í aðra skóla og sjá hvað er verið að gera skemmtilegt.  Þar sem þetta er minn gamli skóli var gaman að ganga þarna um virða fyrir sér breytingar á öllu, hitta gamla kennarar og skólafélaga.  Í kennslustofunum voru kennarar og nemendur búnir að raða upp verkum vetrarins og í fljótu bragði var það kennslustofa hjá 2. bekk sem vakti hrifningu mína.  Enda góðvinkona mín Jóhanna Lára þar við stjórn. Stofan bar vott um virðingu og áhuga fyrir viðfangsefni og nemendum.  Læt hér fylgja með nokkrar myndir því til glöggvunar.

Hér stendur Jóhanna, alltaf jafn  flott og segir  gestum og gangandi  frá  leyndardómum lífsins.Picture 004


Barnaþing

Þetta er frábært.  Frábært að fá jákvæðar fréttir úr skólalífinu.  Barnaþingið er skemmtileg tilbreyting fyrir nemendur og kennara og brýtur upp hefðbundið skólastarf.  Þarna fá nemendur að láta álit sitt í ljós á sínu nánasta umhverfi.  Umhverfi og úrbætur í séð með augum þeirra.  Þau finna að hlustað er á þau og vonandi verður tekið tillit til einhverra óska.  Ég fylgdist með nemendum í mínum skóla þegar undirbúningsferlið fór fram.  Gleðin og áhuginn sem skein úr augum þeirra - ja þið hefðuð átt að sjá það!! þó meira rót komi á skólastarfið þá er það þess virði.  Þarna gátu nemendur nýtt sér það sem þau höfðu lært í skólanum og vonandi séð tilganginn.

Meira svona.

Lifið heil

Rósa  


mbl.is Minni sóðaskap, veggjakrot og stríðni - meira af kakósúpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband