Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Er hrós málið?

Margir kennarar eru að sligast undan agaleysi í íslenskum börnum.  Margir ganga svo langt að segja að þetta sé illa uppalið allt saman.  Þeir eiga allir góð börn sjálfir.  Þegar þeir fara svo í skólaheimsóknir til annarra landa þá tala þeir um hvað allir þar hafi verið stilltir og prúðir að það væri nú munur að kenna svona börnum.  Þetta eru þreyttir kennarar sem vinna of mikið, álagið úr hófi og launin of lág.  En skólinn endurspeglar þjóðfélagið, það eru agalaust þá er ekki von á öðru í skólanum eða hvað.  En hrósum við nógu mikið.  Ég held ekki.  Getum við ekki tekið okkur á í þeim efnum.  Hrósað nemendum okkar í skólanum fyrir einfalda og sjálfsagða hluti.  Fundið eitthvað jákvætt við þau sem sjaldan fá hrós frekar last.  Allir hafa jú eitthvað til brunns að bera er það ekki.  Ef við hugsum um þetta er ég viss um að það kemur okkur á óvart hvað það er margt gott í hverjum einstaklingi.  En við megum ekki gleyma að hrósa samferðarfólki okkar, vinnufélögum og fjölskyldumeðlimum, mikið svakalega er þetta flott peysa sem þú ert í Ingibjörg mín og voðalega bakar þú alltaf góðar kökur Þórdís.  Ameríkanar gera þetta daginn út og inn og krakkarnir þar eru allir stilltir í skólanum eða svo er okkur sagt. :-) Ert þú búin að hrósa einhverjum í dag? Þegar þú stendur upp eftir að hafa lesið þetta hrósaðu fyrstu manneskunni sem þú hittir og reyndu að hrósa 10 sinnum á dag.  Láttu mig vita hvernig gengur. Þér á eftir að líða betur og þeim í kringum þig enn betur.

Lifið heil

Rósa hrósa 


Bráðum kemur betri tíð eða hvað?

Júlíus Vífill er enn og aftur komin í forsvar fyrir menntamál borgarinnar og hefur tjáð sig um ástandið í skólum.  Hann er sammála því að orsök manneklu sé léleg laun og ef að við viljum hafa góða skóla þurfi að greiða kennurum hærri laun.  Að þessu sjáum við að hann stendur með okkur eða hvað.  Ég er nú ekki svo sannfærð en reyni að vera bjartsýn.  Ég veit að til eru peningar til að borgar hærri laun, viljinn er fyrir hendi og fordæmi eins og sést á launahækkun til stundarkennara. En það var einhliða ákvörðun launanefndar seint í haust að tímakaup stundarkennara hækkaði úr 1400 kr á tímann í 2400 krónur.  Þannig að ef stundarkennari er ráðinn þá er hann á hærra kaupi en grunnskólakennari með 10 ára starfsaldur 2400 *26 kennslustundir á viku *4 vikur = 249600 á mánuði. En aldur og menntun skiptir ekki máli.  Ef þetta hefur viðgengst í vetur þá hljóta þeir að geta hækkað laun mín umtalsvert í vor.

Lifið heil

Rósa ráðvanda 


Réttur brotinn á nemendum vegna.......

Á forsíðu Fréttablaðsins í gær er frétt um manneklu í Grunnskólum Reykjavíkur og var einn skóli sérstaklega nefndur.  Þar þarf að skerða stundartöflur nemenda vegna kennaraskorts. Rætt er við Ólaf Loftsson formann Félags grunnskólakennara um ástandið og kemur hann inn á að þetta hafi verið fyrirsjáanlegur vandi eins og ég hef nokkrum sinnum bent á.  En réttur nemenda er brotinn vegna þess að þeir fá ekki þann kennslustundafjölda sem kveðið er um.  En þá spyr ég á móti er réttur nemenda ekki brotinn þegar verið er að redda skorti á kennurum  með hinum og þessum .  Hvernig er þetta þar sem ekki fæst réttindafólk til starfa og ráðnir eru þess í stað einstaklingar með "góða" menntun.  Er ekki verið að brjóta á rétti nemenda?  Í mörgum skólum hafa kennarar og jafnvel annað starfsfólk bætt á sig vinnu til að "hafa ofan af " fyrir nemendum er ekki verið að brjóta á rétti nemenda til lögboðinnar kennslu með þessum reddingum? Í athugun sem gerð var í skólum borgarinnar nú í janúar kom í ljós að aðeins 17 skólar af 38 eru fullmannaðir, hvað þýðir það að vera fullmannaðir skólar?  Er þá réttindafólk í öllum stöðum og enginn að vinna meira en hann ætlaði sér í upphafi skólaárs eða eru þeir kannski enn færri skólarnir sem eru "fullmannaðir". Ég tek undir orð Ólafs um að staðan sé slæm en að hún eigi eftir að versna ef náist ekki að semja strax í vor. 

Lifið heil

Rósa raunamædda


Horft fram á veginn

Jæja þá hef ég lengið undir feld of lengi og mál til komið að skella sér á fætur og undirbúa andann fyrir komandi kjaraviðræður.  Eftir langvarandi tölvuleysi hef ég átt við rifstíflu og framkvæmdarkvíða að stríða en þetta gengur ekki lengur og með hækkandi sól á birtir til í sálinni.  Fréttirnar í 24 stundum í dag um að sérsamningar kennara við einstök sveitafélög gætu verið inn í myndinni í komandi viðræðum boðar spennandi tíma fram undan.  En hvort þetta sé eitthvað sem segir til um innihald þegar við borðið er komið er ekki gott að segja.  Reyndar hef ég ekki trú á því að sérsamningur við kennara í Reykjavik verði innihaldsríkir því Reykjavíkurborg hefur verið það sveitafélag sem helst hefur haldið að sér höndum þegar svona mál koma upp því flestir vilja búa og starfa hér á þessu svæði.  Og ekki geri ég ráð fyrir miklum tekjuafgangi hjá borginni þegar svo margir borgarstjórar eru á háum launum.

....og aldrei það kemur til baka

Já ágætu vinur um leið og ég óska ykkur árs og friðar horfi ég á brennuna út um gluggann hjá mér, degi of seint en vonandi erum við að brenna gamla árið en ekki það nýja.  Við höfum átt róleg og skemmtileg jól og áramót og  nokkuð laus við tölvur þar sem allar tölvur á heimilinu hrundu rétt fyrir jól en það kom ekki að sök við borðuðum meira, lásum meira og horfðum meira á sjónvarpið. Stórfjölskyldan gat verið saman um ármótin þar sem veiku börnin voru orðin frísk og vonandi gefur það okkur fyrirheit um það sem sem árið ber í skauti sér.  Ég ætla auðvitað að reyna að verða betri manneskja á nýju ári, verða besta útgáfan að mér sjálfri til þessa. 

Lifið heil

Rósa


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband