Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Litla stúlkan með vettlingana

Að vera boðin eða ekki í afmæli er stór mál.  Margir foreldrafundir hafa farið í það á liðnum árum að ræða um reglur í þessu sambandi, hverjum á að bjóða, hvað á að gefa osfrv. Fyrir mig er þetta einfalt, ef bjóða á öllum bekknum, drengjahópnum eða stúlknahópnum þá má dreifa boðsmiðum í skólanum.  Af hverju ætti skólinn að vera vettvangur til dreifinga. Er ekki bara fínt að mamma eða pabbi fari með barninu og afhendi miðana eða hringi í viðkomandi foreldra, þannig myndast tengsl sem eru mikilvæg.  Auðvitað eiga foreldra að standa vörð um að enginn sé skilinn út undan á hátíðarstundum.  Margir foreldra útbúa síðan boðskort og láta afmælisbarnið fara með í skólann, barnið tekur  miðana flokkar þá sjálfur og afhendir þeim sem það langar að fá í afmælið.  Þau eru ung þegar þau byrjað á þessu. Sumum foreldrum finnst allt í lagi að skilja einn eða tvo út undan, þeir eru kannski leiðinlegir eða alltaf með læti. Þetta er sagan endalausa á hverju hausti og sumir eru bara heppnir að vera fæddir í júlí. En ein afmælissaga að lokum.  Þegar ég var 8 ára þá átti stelpa í mínum bekk afmæli.  Ég var á þessum tíma afmælisfíkill. Mér var ekki boðið og það þoldi ég illa.  Ég vildi helst komast í allar afmælisveislur og ég sat alltaf manna lengst.  Nú voru góð ráð dýr, hvað átti ég að taka til bragðs til þess að komast í veisluna.  Ég fór heim og spurði mömmu hvort ég ætti ekki að fara selja vettlinga fyrir ömmu, en það gerði ég stundum en bara tilneydd.  Mamma var hissa og glöð og sendi mig út með vettlinga í poka.  Ég fór beina leið heim til bekkjarsystur minnar og bankaði, mamma hennar kom til dyra og ég bauð vettlinga til sölu.  Hún var nú bara hissa á því að sjá mig þarna spurði mig hvort ég vildi ekki koma inn.  Ég lét ekki selja mér það 2svar, hentist heim skipti um föt, náði í 50 kall og í afmælið.

Til hamingju með daginn Sigrún

Lifið heil

Rósa afmælisfíkill 


mbl.is Barnaafmæli veldur uppnámi í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er listakona!

Í gær þegar degi tók að halla gerði ég mér grein fyrir að listin fyrir sumarið væri ekki kominn upp á ísskáp. Ég er nefnilega listakona.  Ég geri lista yfir allt mögulegt. Ég skrifa lista yfir þær bækur sem ég les, yfir það sem ég ætla að versla í búðinni, hvað ég gef hverjum í jólagjöf, hvað ég ætla að gera í vinnunni í dag og svo mætti lengi telja.  Ég strika svo yfir jafnóðum og verki er lokið.  Ég byrjaði á þessu þegar ég var unglingur.  Ég man eitt árið gerði ég lista yfir allar þær bækur sem ég las frá 1. janúar til loks árs og urðu þær 370, verst þykir mér að hafa hent listanum.  Þegar skólasystur mínar byrjuðu að eiga börn upp úr 16 ára aldri þá skráði ég niður nafn móður, barns og ár.  Um daginn hitti ég svo eina þeirra sem átti barn um tvítugt og flutti út á land.  Hún var með ungum manni, þegar ég hafði heilsað henni sneri ég mér að unga manninum og sagði "þú hlýtur að vera Hlynur". Ég mundi að ég hefði skrifað það hjá mér fyrir 23 árum síðan. Þau litu á mig í forundran og héldu sitt. En listinn sem ég skrifa þegar ég fer í sumarfrí er eins á hverju ári, hann er hengdur upp á ísskáp og er þar nokkuð lengi.  Það versta við hann er að það er lítið strikað út af honum. Hér er listinn í ár:

  • fara í garðinn (2svar)
  • taka til í skápum
  • fara í Sorpu (ef það verður farið í skápana
  • klára peysuna ( það er tími til kominn, 6 ár síðan byrjað var)
  • Steikja kleinur (ef það rignir)
  • heimsækja GSM
  • taka til í bílskúr
  • ganga á Esjuna
  • hjóla í bæinn
  • skipuleggja næsta vetur
  • halda boð

Það er kannski ekkert skrítið að ekki sé strikað yfir nema fátt á hverju sumri, hver nennir að eyða sumrinu í skápunum.

Lifið heil

Rósa 


Kraftaverkakennarar

Skólavarðan, málgagn Kennarasambands Íslands kom inn um lúguna hjá mér rétt fyrir helgi.  Að venju eru margar góðar greinar í blaðinu og mig langar að vekja athygli á einni þeirra.  Þetta er grein með yfirskriftinni - Þetta má ekki verða betra- ekki fyrir þennan pening - og er eftir Gylfa Jón Gylfason yfirsálfræðing á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Í greininni hugsar Gylfi Jón til baka og rifjar upp sína skólagöngu í barnaskóla og ber  saman við það sem er að gerast í skólum í dag.  Hann talar með virðingu um Siggu sem kenndi honum, um andrúmsloftið, umhverfið og kennsluhættina.  Gylfi Jón á oft erindi inn í kennslustofur í dag og segir að þó markmiðin séu þau sömu hefur allt annað breyst. Það er erfiðara að halda uppi aga, það tekur lengri tíma að ávinna sér virðingu, nemendur leyfa sér meira en þeir gerðu hér áður. Margir nemendur upplifa það sem afskiptasemi af hálfu kennara að ætlast til að þeir hlýði og fá stuðning frá foreldrum. Starf kennarans hefur breyst gríðarlega á undanförnum áratugum um leið og breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu.  Það er erfiðara að vera kennari en áður.  Gylfi Jón telur að þær eðlisbreytingar sem orðið hafa á stafi kennarans hafi enn ekki verið nægilega metnar til launa. Margir kennara vinni  kraftaverk á of  lágum launum.  Þetta er góð grein sem ég hvet ykkur til að lesa.  Ég vildi gjarnan sjá þessa grein í Mogganum því hún á erindi til allra ekki bara kennara.

Hér má nálgast greinina.

 

Lifið heil

Rósa  


Af hverju hefur áhugi á kennslu minnkað?

Þessi frétt vekur eflaust upp margar spurningar sem ekki náðist að svara.  Af hverju hefur áhugi á kennaramenntun dvínað og gaman væri að fá nýlega könnun á því hvert þeir kennarar fara eftir útskrift.  Fyrir mér er þetta mjög einfalt mál.  Áhugi á kennarastarfinu hefur minnkað því launin eru ekki nógu góð.  Þó lengingin í 5 ár hafi ekki tekið gildi þá er hún í umræðunni og margir hafa ákveðið að fara í annað því þau laun sem í boði  eru eftir fimm ára háskólanám eru ekki boðleg. Neikvæð umræða um kennara sem koma upp á hverju ári hafa líka áhrif á ákvörðun ungs fólks.  En það er annað sem gleymist. Margir kennarar hafa snúið til annarra starfa undafarin ár og er það aðallega tvennt sem kemur til.  Launin eins og fyrr segir og síðan álag. Kennarar finna fyrir meira álagi en var í kennslu fyrir 10 árum og fara í önnur störf því þeir geta einfaldlega ekki meira.  Þetta finnst mér vera áhyggjuefni.  Þetta þarf að skoða áður en við missum úr skólunum kennara á miðjum aldri vegna álags, því ekki koma svo margir í staðinn. Við missum einnig úr skólunum unga kennara eftir stuttan starfsferill því þeir þola illa álagið.  Nú er að hverfa af vinnumarkaði stór hópur kennara vegna aldurs, eftir eru kennarar á besta aldri sem reyna að lokka til sín nýútskrifaða og segja þeim hversu gefandi og skemmtilegt starfið sé sem það er þrátt fyrir ....... 

Í greininni  kemur fram að ágætlega hafi gengið að manna stöður grunnskólakennara í vor og síðustu spár hafi ekki bent til annars en að framboðið verði nægt.  Ef farið er inn á vef Menntasviðs eru þar auglýsingar um 50 kennarastöður í Reykjavík, eflaust er búið að ráða í nokkrar þeirra en hitt veit ég að aðrar voru ekki auglýstar.  Þannig að nú þegar skólastjórar eru að fara í sumarfrí þá vantar um 50 kennara í Reykjavík.  Kennararnir sem fóru í önnur störf hafa ekki skilað sér aftur þótt búið sé að semja og möguleikar á annarri vinnu færri. Ástandið í fyrrahaust var slæmt og veit ég að það verður betra á komandi haust en betra er ekki nóg, best er best. 

Ingibjörg til hamingju með daginn

Lifið heil

Rósa 


mbl.is Minni áhugi á kennslu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðrún Ósvífursdóttir

Til hamingju með daginn konur.  Í tilefni af deginum ákvað ég að athuga í Íslendingabók hvort einhver merk kona hafi verið formóðir mín eða skyld mér.  Í fljótu bragði datt mér fjögur nöfn í hug, Vigdís Finnboga en ekkert erum við skyldar svo ég ákvað að seilast lengra aftur í tímann. Þá komu upp nöfnin Auður djúpúgða Ketilsdóttir, Hallgerður Langbrók og Guðrún Ósvífursdóttir sem ég hef alltaf haldið svolítið upp. Hún er ein af stórbrotnustu persónum Íslendingasagnanna,kvenna vænst og allt það. Auðvitað er nú formóðir mín.  Gellir sonur hennar og Þorkels Eyjólfssonar var langalangalanga.........afi minn.  En ég er að hugsa um að hringja í Þorkel því þeir eru svo framsýnir þarna hjá Íslendingabók að þeir bjóða upp á símanúmer.  Það er eitt og annað sem mig langar til að vita. En svona lítur þetta út:

  

Guðrún Ósvífursdóttir

   Þorkell Eyjólfsson   
   970   +3549791026  

 

 

Gellir Þorkelsson 1009 - 1073
Þorgils Gellisson 1030 - 1074
Húnbogi Þorgilsson 1070
Snorri Húnbogason 1100 - 1170
Narfi Snorrason 1135 - 1202
Snorri Narfason 1175 - 1260
Narfi Snorrason 1210 - 1284
Snorri Narfason 1260 - 1332
Ormur Snorrason 1320 - 1401
Guðmundur Ormsson 1360 - 1388
Þorbjörg Guðmundsdóttir 1385 - 1431
Kristín Guðnadóttir 1410 - 1490
Páll Jónsson 1445 - 1496
Þorleifur Pálsson 1485 - 1558
Ásmundur Þorleifsson 1540 - 1588
Þorleifur "yngri" Ásmundsson1570 - 1609
Jón "yngri" Þorleifsson1600
Stefán Jónsson 1657
Guðmundur Stefánsson 1706 - 1782
Sigríður Guðmundsdóttir 1736 - 1811
Árni Eiríksson 1778 - 1862
Guðríður Árnadóttir 1807 - 1883
Björg Eyjólfsdóttir 1841 - 1897
Ágúst Jónsson 1877 - 1954
Sigmundur Kristinn Ágústsson1905 - 1972
Hörður Sigmundsson1940
Rósa Harðardóttir1965


Ég læt ykkur vita ef ég næ sambandi

Lifið heil

Rósa


Morgunstund gefur......

...............aukna orku.  Já ég hendist á fætur 5:30 þrisvar í viku og fer í göngu.  Í morgun var veðrið yndislegt og það var ekkert erfitt að vakna.  Hvað er yndislegra en að ganga í fallegu umhverfi eins og er hér í dalnum okkar, hlusta á fuglasönginn og anda að sér fersku sumarlofti áður en allir aðrir fara af stað. Við erum orðnar 3 í gönguklúbbnum og veðrið er alltaf gott og mæting 100%.  Við uppskerum lengri dag og meiri orku.

Lifið heil

Rósa  


Heima er best

Ég fæ aldrei leið á því að elda góðan mat og á sumrin er grillið óspart notað.  Við erum nú samt að breytast í fugla hér á þessum bæ því oftar en ekki verður kjúklingur fyrir valinu þegar staðir er við kjötborðið.  Hann er hollur og endalausir möguleikar í eldun.  En oft er erfitt að finna nýjar leiðir. Um helgina grilluðum við kjúkling eina ferðina enn og heppnaðist bara nokkuð vel.  Hér kemur uppskrift og mynd.Picture 005

4 kjúklingabringur 

kryddlögur:

4 hvítlauksrif söxuð

4 skalottlaukar fínsaxaðir (má nota hálfan venjulegan)

1 tsk kóríanderfræ

1 tsk kummin, malað

1 stöngull sítrónugras

2 rauð chilialdin fínsöxuð

4 msk ólífuolía

Setið allt saman í matvinnsluvél og maukið vel.  Setjið kjúklingabringurnar í maukið og látið marínerast í 2-4 tíma.

Berið fram með kús kús, sataysósu eða kaldri sósu og þessu ágæta salati:

1 poki gott salat t.d klettasalat

1-2 paprikur rauðar, gular eða orange

1 gúrka

1 box kokteiltómatar

1 lítil dós niðursoðnar ferskjur

1 poki litlar mozzarella kúlur

furuhnetur og ristaðar kókosflögur eftir smekk. Öllu blanda saman og gott er að setja smá balsamiksírop  yfir salatið rétt fyrir framleiðslu.

Þessu var svo skolað niður með frönsku eðalvíni  Lamothe Vincent Merlot Cabernet.

skál! 


Beðmál við Brekkulæk

Í gærkvöldi var mér boðið í sérdeilis smart kokteilboð við Brekkulæk.  Þangað mættu um 15 konur á háum hælum og boðið var upp á Cosmó og smárétti.  Þegar búið var að dreypa á guðaveigunum þá stormaði öll hersingin í Laugarásbíó og þar hittum við vinkonur okkar frá New York, þær Carrie, Miröndu, Sam og Charlottu.  Það voru fagnaðarfundi enda langt síðan síðast.  Eitthvað hafa þær þroskast á þessum tíma og farnar að hugsa um aðra hluti en áður.  Lífið orðið alvarlegra, minna um áhættur og aðalatriðin önnur. Þær voru held ég að nálgast tilgang lífsins og búnar að átta sig á því að lífið snýst ekki bara um föt, kynlíf, kokteila og merkjavörur heldur um....ja sitt sýndist hverri. Hér eru mynd úr boðinu  og mynd af   nokkrum góðum á dyraþrepunum hjá aðalkonunni.

IMG 3344

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Skóli án aðgreiningar

Þorsteinn Sæberg skólastjóri í Árbæjarskóla gerði þjónustu við fötluð börn að umfjöllunarefni í ræðu sinni við skólaslit nú í vor. Þetta þótti tilefni til fréttar í Mogganum sem birtist mánudaginn 9. júní.   Þar segir hann réttilega að margra mánaða bið sé á barna og unglingageðdeild og jafnvel marga mánaða bið á Greiningarstöðina. Á meðan bíða þessi börn eftir aðstoð og greiningu í sínum skólum.  En hvað gerist eftir greiningu? Í mörgum tilfellum fá börn þá aðstoð og hjálp sem þau þurfa en í öðrum tilfellum ekki.  Skólinn er oft ekki í stakk búin til að vinna með þessum börnum.  Börn með miklar geðraskanir fá oft á tíðum ekki þá umgjörð sem þau þurfa því hin almenna kennara skortir þekkingu og tíma til að sinna þeim. Við höfum heyrt það undanfarin ár að greiningum hafi fjölgað og langir biðlistar hafi myndast. Í greininni segir hann ennfremur að hann sé  mikill talsmaður skóla án aðgreiningar og fagnar þeirri stefnu mjög. Auðvitað gerir hann það.  Hvað skólastjóri gerir það ekki.  Þetta er stefna skólayfirvalda í Reykjavík og skólastjórar þurfa að vera talsmenn hennar. Stefnan er góð og vonandi geta allir sem koma að skólamálum í borginni verið sammála henni en því miður er ekki nóg að hafa góða stefnu ef ekki gengur vel að fylgja henni eftir.  Til þess þarf meiri pening og meiri sérþekkingu.  Erfitt er að ráða þroskaþjálfa til starfa og sálfræðiþjónusta innan skólanna er allt of lítil.  Stuðningur við kennara sem er allir að vilja gerðir er of lítill til þess að sinna þessum nemendum svo vel sé. Af þessu skapast hægur bati og oft meiri einkenni en ella þannig að skólagangan getur verið gloppótt.  Þetta þarf að laga hið fyrsta svo öllum börnum líði vel í skólanum það er forsenda náms.

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1220736

Lifið heil

Rósa


Draumar eiga að rætast

Picture 099Litli bróðir minn sagði við stóra bróður að allir ættu að eiga sér drauma, en það væri ekki nóg heldur ættu við að láta þá rætast.  Stóri bróðir tók hann á orðinu og fór og keypti sér mótorhjól. En mér datt þetta í hug í gærkvöldi þegar ég kom heim eftir helgarferð til Kaupmannahafnar.  Þangað fór ég með foreldrum mínum.  Pabbi sagði  þegar ég skilaði þeim heim þreyttum en glöðum að þetta hafi verið góð ferð og 50 ára draumur mömmu hafi ræst. Foreldrar mína hafa ekki ferðast mikið og mamma fór í sína fyrstu utanlandsferð eftir sextugt.  Þegar hún var unglingur þá bjó föðursystir hennar í Köben þar sem hún var ráðskona hjá Stefáni Jóhanni sendiherra og heyrði hún skemmtilegar sögur frá borginni.  Ég vissi af þessum draumi og ákvað í vor að láta hann verða að veruleika og það tókst.  Við fórum í þessa stuttu en skemmtilegu ferð, fengum sól og hita allan tímann.  Skoðuðum alla borgina, gengum tugi kílómetra og fórum í siglingu.  Við borðuðum á hundgömlum veitingastöðum og drukkum öl, skoðuðum kastala og postulín. Draumurinn rættist og nú þarf mamma að finna sér nýjan draum.

Lifið heil

Rósa rauða 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband