Að lifa af
11.10.2007 | 23:42
Það er ekki oft sem fólk kemur með athugasemdir við það sem ég skrifa en ég fagna því. Meira verður að heyrast um málefni kennara og skólans. Þorgerður Diðriksdóttir svaraði því sem ég skrifaði í gær og þakka ég henni fyrir. Ég vona að hún hafi ekki misskilið mig og held reyndar ekki. Hún er í betri stöðu en ég að breyta launum kennara eða hafa áhrif á gang mála sem formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Og hún er enn að kenna þannig að hún veit hversu erfitt það er að lifa af þeim launum sem við fáum og að sætta sig við þau. En þó að ég hafi sagt það hér í seinustu færslu að mér þætti gaman í vinnunni þá er það að sjálfsögðu ekki nóg. Ég ét andskotakornið ekki þessa ánægju. Þess vegna er ég eins og margir í minni stöðu að hugsa minn gang. Þetta gengur auðvitað ekki svona mikið lengur. Þið sem hafið fylgst með skrifum mínum og þekkið til í skólum þetta skólaárið hljótið að hafa tekið eftir því hversu slæmt ástandi er, verra hefur það varla verið síðan ég byrjaði að kenna. Því er maður alvarlega farin að hugsa um hvað sé hægt að gera í stöðunni. Ég get sem einstaklingur ákveðið að segja upp og fengið mér aðra vinnu, en ég get líka tekið þátt í aðgerðum ásamt öðrum kennurum til að knýja fram launabætur án þess þó að fara í verkfall. Ég auglýsi hér eftir samstöðu.
Lifið heil
Rósa hungraða
Athugasemdir
Nei ég misskildi ekki skrif þín í gær. Margoft hefur í umræðunni um kjör kennara heyrst þessar fullyrðingar: -kennarar starfa af hugsjón.-kennarar vita að það eru ekki há laun í stéttinni þegar þeir hefja nám í Kennaraháskólanum samt komast færri að en vilja inni í skólann.-kennarar elska börn þess vegna starfa þeir við kennslu. Nú er svo komið að jafnvel þeir kennara sem þessar fullyrðingar gilda um eru að hugsa um að hverfa frá störfum. 1. október, var haldinn 62. fundur menntaráðs Reykjavíkur.Á þeim fundi var afhent minnisblað um stöðuna í starfsmannamálum í grunnskólum borgarinnar. Fram kom að enn vantar 21 kennara til starfa og 28 starfsmenn. Alls 49 manns vantar því í skólana til að skólastjórar telji sig vera með fullmannað. Núna segjast 16 skólastjórar vera búnir að fullmanna skólanna en 8 skólastjórar sögðust vera með fullmannað 20. ágúst, minnisblaðið segir að búið sé að ráða í 98,9% stöðugilda kennara í grunnskólum Reykjavíkur. Það sem vakti athygli mína var að þetta skuli vera staðan sem skólastjórnendur gefa upp. Þrátt fyrir fréttir frá mörgum trúnaðarmönnum, jafnvel í þeim skólum sem teljast vera fullmannaðir, að kennarar hafi tekið að sér mun meiri yfirvinnu en þeir telja sig ráða við eða vilja. Hvernig gengur að halda skólastarfi gangandi og hver er faglegur metnaður stjórnendar?Er búið að manna þessar stöður og verður hægt að halda skólastarfi gangandi í vetur við þessar aðstæður? Þessi staða var uppi 1. október en eftir þann tíma hafa margir kennara skilað inn uppsagnarbréfi sínu og eru að hverfa frá störfum fyrir full tog allt.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 12.10.2007 kl. 22:33
Sæl Rósa
Ég kíki reglulega inn á síðuna þín en hef aldrei skrifað athugasemdir... kominn tími til.
Ég er fyllilega sammála þér með að það sé gaman í vinnunni og ég hlakka til að koma í vinnuna því ég veit ekki hvernig dagurinn verður og finnst það ögrun að eiga við börn - hvernig ég get nálgast þau og aðstoðað þau við að læra.
En ég er líka sammála því að ég lifi ekki af því - ég þarf að eiga í mig og á! En ætli það sé þá stöðutákn fyrir karlmenn að segja að þeir eigi konu sem kennara?
Ég er í þannig aðstöðu að ég er að sinna börnum einhverra foreldra (kenna). Ég er að vinna lengur á daginn en ég ætlaði. Barnið mitt fær ekki inn í gæslu í sínum skóla því það vantar starfsmenn og ég sótti ekki um fyrir 1. apríl því ég ætlaði jú ekki að vinna svona mikið og sá ekki að ég þyrfti gæslu alla daga vikunnar. Ég þarf að skipuleggja hverja viku fyrir sig ... hver mun sækja strákinn minn??? Þetta er alls ekki gott til lengdar fyrir sálina ... eitthvað mun líklega gefa sig ef ekkert verður gert - það er spurning með nýja borgarstjórn ??? Munu hún leggja áherslu á skólamál ???
Mig langar til að gera eitthvað í þessum málum en ég veit ekki hvað. Ég segi eins og þú ég get sagt upp og farið að gera eitthvað annað. Mig langar ekki til að fara í verkfall og tapa launum - mig langar til að gera eitthvað núna.
Kveðja Líney Björg
Líney Björg (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 10:33
Takk fyrir þetta Líney
Já það þarf að gera eitthvað strax og gott að heyra að fleiri séu sammála. Nú er um að gera að efla samstöðuna og sverfa að. Nýr borgarstjóra hefur örugglega áhuga á því að leiðrétta launin en ég veit ekki hvar við verðum í biðröðinni. Hann þarf að laga svo margt eins og samgöngumálin í borginni. Spennandi að sjá á hverju hann byrjar.
Rósa Harðardóttir, 14.10.2007 kl. 17:21
Þorgerður
Eins og þú sérð á því sem Líney skrifar hér fyrir ofan þá er málið verra en það sýnist og hefur í för með sér aukaverkanir sem ekki var séð fyrir. En að skólastjórar segi að það sé fullmannað hjá sér þegar kennara eru með 30 -35 tíma á viku í kennslu án þess að hafa óskað eftir því er einkennilegt. Með hverjum standa þeir? Er gott að vera skólastjóri sem kvartar ekki og segir að allt sé gott hjá sér eða vera sá sem viðurkennir að ástandi sé hörmulegt og ekki nein lausn í sjónmáli. Við erum búin að setjast niður í mínum skóla og ræða ástandið, það er ekki gott og ekki má gleymi þeim mannaráðningum sem oft þarf að grípa til á miðju skólaári eins og í lengri veikindum og fæðingarorlofsmálum sem koma upp á hverju ári. Svo bætast við eins og þú bendir á allir þeir sem ætla ekki að bíða fram á vor og hafa sagt upp nú þegar.
Þannig að eins og ég sagði ástandið er verra heldur en fólk gerir sér grein fyrir og meðan við mætum í vinnuna og þegjum þunnu þá gerist ekkert.
Rósa Harðardóttir, 14.10.2007 kl. 17:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.