Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Jákvæðar fréttir af skólamálum
8.4.2008 | 11:25
Það kemur stundum fyrir að fluttar eru jákvæðar fréttir af skólamálum í fjölmiðlum. Helst er það í lok fréttatíma sjónvarpsins, kannski svona tvisvar í mánuði. Of sjaldan. Í blöðunum er þetta einu sinni í viku ef vel gengur. Þetta þarf að laga. Vinkona mín, kennaramenntuð býr í Danmörku og tók strax eftir því þegar hún flutti út að þessu var öðruvísi farið þar. Það er mikið um jákvæðar fréttir á sjónvarpsstöðvunum og í blöðum frá skólastarfi. Ekki endilega þegar vorið er komið eða þegar einhver skólinn á afmæli heldur hvenær sem er. Þetta gefur fólki aðra sýn á skólann, byggir upp jákvætt viðhorf til skólamála og kennara. Þetta skiptir okkur öll máli því grunnmenntun í landinu er undirstaða undir farsæld og velmegun. Við þurfum að fá fjölmiðla í lið með okkur - því allir ættu að vera í sama liði og við - til að hefja skólastarfið til vegs og virðinga á ný. Hjálpumst að benda á og segja frá jákvæðum hlutum í skólastarfinu smátt og smátt hefur það áhrif til lengri tíma.
Lifið heil
Rósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mótmæli
2.4.2008 | 17:47
Mér hefur alltaf þótt Hjálmar Sveinsson rithöfundur og fjölmiðlamaður notalegur, þekki hann ekkert, hef aldrei hitt hann en finnst gott að hlusta á hann. Ég hlustaði á hann á leiðinni heim úr vinnu í dag og ekki var það verra. Hann fékk auka prik. Hann var í viðtali á síðdegisútvarpi Rásar 2 og verið var að ræða mótmæli. Hann gaf ekki mikið fyrir þessi mótmæli í bílstjórum og fannst þeir geta fengið sér minni jeppa. En hann velti því fyrir sér hvað Íslendingar væru einkennilegir mótmælendur. Hér á landi er matarverð hærri en í öðrum löndum og enginn mótmælir, við verslum bara meira. Og kennaraverkfallið stóð í margar vikur og foreldrar og aðrir landsmenn mótmæltu lítið heldur reyndu bara að redda málunum. Hvort er nú mikilvægara að geta keypt ódýrara bensín á fína jeppann eða að geta sent barnið þitt í skólann þar sem það fær sómasamlega kennslu hjá ánægðum kennurum og þegar það kemur heim fær að eitthvað gott og hollt að borða. Áherslur hjá okkur er kolrangar. Af hverju tóku landsmenn ekki þátt í baráttu grunnskólakennara og mótmæltu hressilega. Af hverju mótmælum við ekki háu matarverði?
Lifið heil
Rósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kennarar verða fyrir ofbeldi
1.4.2008 | 21:44
Var fyrirsögn á lítilli frétt í Mogganum í gær. En þar segir að kennarar í grunnskólum í Kaupmannahöfn verða fyrir miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi við vinnu sína. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu segir í frétt frá BT. Ástandið er mjög alvarlegt og því miður hafa skólayfirvöld látið hjá líða að tilkynna árásir til þess að skólinn falli ekki í áliti. Þessar árásir eru margvíslegar, högg, spörk, bit, kverkatak og andlegt ofbeldi. Ástæðan er sögð sú að félagslega kerfið hefur brugðist og börnum með hegðunarvanmál sé ekki nægilega sinnt. En hvernig er þetta hér á landi. Við fylgjum nágrannaþjóðum oft eftir í skólamálum eins og félagslegum málum. Hvernig er tilkynningaskyldan hér og erum við að tilkynna þau mál sem koma upp. Erum við að sigla í sama far og Danir og ef svo er getum við þá lært af reynslu þeirra. Getum við ekki verið sammála um að erfið hegðun nemenda sé meiri nú síðustu ár og ekki er félagslega kerfið og þau úrræði hjá okkur nógu góð. Margra mánaða bið er eftir greiningum og inngrip barnaverndaryfirvalda eru sein og oft á tíðum gagnslítil. Of fá úrræði eru í dag fyrir nemendur með hegðunarvandamál og kennarar oft máttlitlir til að takast á við erfiða hegðun. Þekkingin er ekki til staðar í skólum og sálfræðiaðstoð af skornum skammti. Sérdeildir hafa verið lagðar niður í skjóli einstaklingsmiðaðs náms og áhrifin eru að koma í ljós. Getur verið að erfið hegðun nemenda og úrræðaleysi í þeirra málum flýti fyrir útbrennslu kennara? Ég geri mér grein fyrir að margir þættir ráða því að hegðunarvandamál eru fleiri en þau voru og að oft megi gera betur með þeirri þekkingu og reynslu sem er til staðar á hverjum stað en hitt er staðreynd að þegar ég hitti kennara sem er búin að kenna álíka lengi og ég er hefur enn möguleika á að skipta um starf, hefur jafnvel hætt að kenna þá er þetta viðkvæðið - launin eru ömurleg og þetta er orðin svo erfið vinna með öllum þessum hegðunarvandamálum og úrræðaleysi- ég nenni þessu bara ekki. Þessu verður að breyta svo öllum líði vel í skólanum, bæði starfsmönnum og nemendum án þess náum við ekki árangri.
Lifið heil
Rósa á róli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)