Af hverju kennari?
10.4.2008 | 22:36
Í gegnum tíðina hef ég oft fengið þessa spurningu: hvað varð til þess að þú ákvaðst að verða kennari? Mín saga er þessi. Það var algjör tilviljun. En svo er kannski ekkert algjör tilviljun eða hvað. Ég var ný orðin stúdent og vann í sjoppu, vissi ekkert hvað ég átti að gera, langaði til útlanda sem óper. Sótti um tvær barnapíustöður og var hafnað. Eitt laugardagskvöld í sjoppunni, þegar ekkert var að gera var ég að lesa sunnudagsmoggann, þá kemur fastakúnni inn og heyrir á mér að ég er að velta fyrir mér framtíðinni. Hann spyr mig hvort mér hafi ekki dottið í hug að fara út á land að kenna það væru svo margir sem gerðu það. Á mánudeginum byrja ég að hringja á nokkra staði og vita menn, ég gat valið úr kennarastörfum. Þá voru góð ráð dýr, hvert átti ég borgarbarnið að fara. Jú, ég vildi ekki fara á of lítinn stað, það yrði að vera bókasafn á staðnum og eitthvað um að vera. Þá varð Sauðárkrókur fyrir valinu, ég hringdi í Björn í neðra og hann réð mig. Þar var ég í eitt ár og samkennara mínir reyndu hvað þeir gátu að annað hvort halda mér á staðnum eða að forða mér frá því að gerast kennari. Það tókst í bili. Eftir árið fór ég suður, skrapp til Jamaica í 2 mánuði og fór svo að vinna í banka. Þegar ég hafði unnið eitt ár í bankanum þá fannst mér að ég þyrfti að mennta mig, þá stóð ég frammi fyrir erfiðu vali. Hvort ætti ég að fara í viðskiptafræðina sem ég ætlaði alltaf að fara í eða í Kennó. Ég valdi það Kennó því mér fannst kennslan skemmtilegasta vinna sem ég hafði unnið. Valdi ég vitlaust, því get ég ekki svarað. En ég held líka að þeir kennara sem ég hafði í grunnskóla hafi kannski haft áhrif á þetta val. Ég var frekar heppin með kennara. Fyrst skal nefna Valgerði Hrólfsdóttur, hún kenndi mér í 2. bekk, svo falleg og góð, síðan var það Hanna Kristín Stefánsdóttir. Hún var frumkvöðull og kennslan hennar var framsækin og fjölbreytt. Í unglingadeild var það Ingvar, hann var harður kall, sem lét okkur hlýða, gekk á höndum til að fanga athygli okkar, hélt uppi aga en umfram allt góður kennari, ég var dugleg í stærðfræði á þessum árum. Ég held að þessar fyrirmyndir hafi haft áhrif á val mitt þó ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en seinna.
Lifið heil
Rósa
Athugasemdir
Hanna Kristín og Hjörleifur er fyrst núna að njóta lífsins. Valgerður lést eftir erfið veikindi, 21. júní 2001. Áttu hér við Ingvar Sigurgeirsson?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 21:50
Takk fyrir þessar upplýsingar Gísli, ég frétti af Valgerði. Nei þetta var ekki sá Ingvar heldur Ingvar Einarsson skíðamaður, einn af skólastjórnendum í Árbæjarskóla.
Rósa Harðardóttir, 12.4.2008 kl. 22:18
Ég gat ekki sofnað í gær, hugsaði mikið um þetta með Hönnu Kristínu. Eru hún og Hjörleifur að njóta lífsins? Hún var nú alltaf gift bróður hans honum Lofti í gamla daga.
Rósa Harðardóttir, 13.4.2008 kl. 16:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.