Færsluflokkur: Bloggar

Mótmæli

Mér hefur alltaf þótt Hjálmar Sveinsson rithöfundur og fjölmiðlamaður notalegur, þekki hann ekkert, hef aldrei hitt hann en finnst gott að hlusta á hann.  Ég hlustaði á hann á leiðinni heim úr vinnu í dag og ekki var það verra.  Hann fékk auka prik.  Hann var í viðtali á síðdegisútvarpi Rásar 2 og verið var að ræða mótmæli.  Hann gaf ekki mikið fyrir þessi mótmæli í bílstjórum og fannst þeir geta fengið sér minni jeppa.  En hann velti því fyrir sér hvað Íslendingar væru einkennilegir mótmælendur.  Hér á landi er matarverð hærri en í öðrum löndum og enginn mótmælir, við verslum bara meira.  Og kennaraverkfallið stóð í margar vikur og foreldrar og aðrir landsmenn mótmæltu lítið  heldur reyndu bara að redda málunum.  Hvort er nú mikilvægara að geta keypt ódýrara bensín á fína jeppann eða að geta sent barnið þitt í skólann þar sem það fær sómasamlega kennslu hjá ánægðum kennurum og þegar það kemur heim fær að eitthvað gott og hollt að borða. Áherslur hjá okkur er kolrangar. Af hverju tóku landsmenn ekki þátt í baráttu grunnskólakennara og mótmæltu hressilega.  Af hverju mótmælum við ekki háu matarverði?

Lifið heil

Rósa  


Kennarar verða fyrir ofbeldi

Var fyrirsögn á lítilli frétt í Mogganum í gær.  En þar segir að kennarar í grunnskólum í Kaupmannahöfn verða fyrir miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi við vinnu sína. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu segir í frétt frá BT. Ástandið er mjög alvarlegt og því miður hafa skólayfirvöld látið hjá líða að tilkynna árásir til þess að skólinn falli ekki í áliti.  Þessar árásir eru margvíslegar, högg, spörk, bit, kverkatak og andlegt ofbeldi. Ástæðan er sögð sú að félagslega kerfið hefur brugðist og börnum með hegðunarvanmál sé ekki nægilega sinnt.  En hvernig er þetta hér á landi.  Við fylgjum nágrannaþjóðum oft eftir í skólamálum eins og félagslegum málum.  Hvernig er tilkynningaskyldan hér og erum við að tilkynna þau mál sem koma upp.  Erum við að sigla í sama far og Danir og ef svo er getum við þá lært af reynslu þeirra.  Getum við ekki verið sammála um að erfið hegðun nemenda sé meiri nú síðustu ár og ekki er félagslega kerfið og þau úrræði  hjá okkur nógu góð.  Margra mánaða bið er eftir greiningum og inngrip barnaverndaryfirvalda eru sein og oft á tíðum gagnslítil.  Of fá úrræði eru í dag fyrir nemendur með hegðunarvandamál og kennarar oft máttlitlir til að takast á við erfiða hegðun.  Þekkingin er ekki til staðar í skólum og sálfræðiaðstoð af skornum skammti.  Sérdeildir hafa verið lagðar niður í skjóli einstaklingsmiðaðs náms og áhrifin eru að koma í ljós.  Getur verið að erfið hegðun nemenda  og úrræðaleysi í þeirra málum flýti fyrir útbrennslu kennara? Ég geri mér grein fyrir að margir þættir ráða því að hegðunarvandamál eru fleiri en þau voru og að oft megi gera betur með þeirri þekkingu og reynslu sem er til staðar á hverjum stað en hitt er staðreynd að þegar ég hitti kennara sem er búin að kenna álíka lengi og ég er hefur enn möguleika á að skipta um starf, hefur jafnvel hætt að kenna þá er þetta viðkvæðið - launin eru ömurleg og þetta er orðin svo erfið vinna með öllum þessum hegðunarvandamálum og úrræðaleysi- ég nenni þessu bara ekki.  Þessu verður að breyta svo öllum líði vel í skólanum, bæði starfsmönnum og nemendum án þess náum við ekki árangri.

Lifið heil

Rósa á róli 


Ferming

Jæja þá getur lífið haldið áfram. Nú er komið tímabilið eftir fermingu.  Litli strákurinn orðinn stór, og allir í fjölskyldunni fermdir.  Litla barnið fermdist í gær og haldin var veisla heima hjá Rúnu ömmu með hnallþórum og tilheyrandi. Allir lögðust á eitt við að gera þennan dag eftirminnilegan og það tókst nokkuð vel.  Á hreint frábæra fjölskyldu og vini sem ég stend í þakkarskuld við.  Er enn að úða í mig veisluföngin. Gestirnir glaðir og kátir og mikið var gaman að sjá vini fermingardrengsins, allir nýfermdir í jakkafötum svo kurteisir og flottir.  Glaðastur var samt drengurinn sem stóð sig eins og hetja en er eflaust feginn að allt er yfirstaðir. Takk öll og Moli minn til hamingju með daginn. Flottur

Lifið heil

Rósa þreytta 


Atvinna í boði

Jæja nú er fríið á enda og vinnan byrjar í fyrramálið.  Ólíkt sætu strákunum á myndbandinu í síðustu færslu þá hlakka ég til að mæta.  Nú er að bretta upp ermarnar og gera allt klárt fyrir lokatörnina í skólanum.  Stutt eftir fram á vor.  En vorboðinn er mættur í formi atvinnuauglýsinga skólayfirvalda víðsvegar um landið.  Þetta birtist í hátíðardagblöðunum.  Í Reykjavík er búið að auglýsa eftir 87 kennurum í 26 skóla, enn eru nokkrir skólar eftir að auglýsa þar sem starfsmannaviðtölum er ekki lokið.  Kennara vantaði reyndar á flestum stöðum í eintölu þ.e. "kennara vanta á miðstig, kennara vantar á yngsta stig", og veit ég að í mörgum tilfellum er átt við fleiri en einn á hverju stigi.  Þá margfaldast þessi tala 87.  Í öðrum sveitafélögum vantar einnig slatta af fólki, Reykjanesbær er með stóra auglýsingu og fleiri spennandi staðir.  Næstu daga fáum við vonandi að heyra eitthvað meira frá samninganefndinni sem verður síðan til þess að auðvelt verður að ráða í þessara stöður.  Eða því verðum við að trúa.

Lifið heil

Rósa rauða 


Að koma aftur í skólann eftir frí

Þetta verðið þið á kíkja á þótt langt sé. http://www.youtube.com/watch?v=QYJn7oG-bpE

Ég get ekki sett þetta inn  með því að klikka á you tube merkið er einhver sem veit afhverju?  En allavega virkar linkurinn hér að ofan. Góða skemmtun

 


Geta foreldrar verið til vandræða?

Í nýlegri skýrslu sem unnin var af Cambridge háskóla um agavandamál í skólum kemur fram að foreldrar eiga þátt í vaxandi agavandamálum í Bretlandi. Þetta eru foreldrar nemenda sem eru vanir að fá það sem þeir vilja og ef ekki þá tryllast þeir bara. Þeir vaka of lengi, mæta þreyttir og skapvondir í skólann og eiga erfitt með að fara eftir reglum sem settar eru.  Þegar skólayfirvöld hafa svo samband heim þá standa foreldrar með börnunum nema hvað og eru oft árásagjarnir og grípa jafnvel til ofbeldis.  Í stað þess að reyna finna leiðir til að refsa eða hvetja þá láta foreldrar undan til að halda friðinn og þetta er útkoman.  En hvernig er íslenskur veruleiki.  Getur þessi lýsinga átt við börn og foreldra á Ísland og kannast kennarar hér við Þessa "sveigjanlegu" foreldra?

Lifið heil

Rósa


Undarlegur dómur

Eftir að hafa heyrt frétt um niðurstöðu Héraðsdóms í máli kennarans á Seltjarnarnesi þá vakna ýmsar spurningar.  Ég get engan veginn verið sammála þessu. Að sjálfsögðu átti kennari sem meiðist í starfi að fá greiddar þessar bætur en móðir nemandans á ekki að þurfa greiða þær.  Sama við hvaða aðstæður þetta slys varð þá hefur hún ekki tækifæri til að vera með barni sínu í skólanum, það er á ábyrgð þeirra sem þar starfa.  Ef starfsmaður sveitafélaga slasast í starfi eiga sveitafélög að vera bótaskyld. En svo vekur þetta upp spurningar um aðstæður nemenda í skólum og aðstæður starfsfólks.  Mér finnst þetta mál gefa okkur tilefni til að skoða þau mál vel enn betur en hefur verið gert til þessa.Við erum með skóla án aðgreiningar og  erfiðari mál heldur en oft áður, fleiri nemendur sem glíma við þroskafrávik, geðraskanir og önnur vandamál. Við erum með kennara og annað starfsfólk sem er misvel í stakk búið til að takast á við þessi vandamál og oft spyr maður sig hvað þarf að gerast til þess að eitthvað gerist.  Það þarf að ræða þessi mál, fá þau upp á yfirborðið þannig að við getum tryggt að allir séu öruggir í skólanum, og ef eitthvað gerist sé það á hreinu hver sé bótaskyldur.  

Lifið heil

Rósa


mbl.is Dæmd til að greiða kennara 10 milljónir í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ greyið

Vinur minn, ungur maður á milli tvítugs og þrítugs, sem er að kaupa sína fyrstu íbúð og á von á fyrsta barni sínu fékk upphringingu frá Capacent á dögunum.  Þetta var launakönnun sem þeir gera reglulega og vinur minn svo heppinn að vera dreginn út.  Hann var spurður hvað hann hefði í laun á mánuði: ertu með undir 250.000 þúsund, 250 - 400.000 og svona hélt spyrillinn áfram.  Þegar hún loks stoppaði upptalninguna gat vinur minn stunið upp "Þetta sem þú nefndir fyrst undir 250" þá spurði forvitinn spyrillinn "við hvað starfar þú'" og vinur minn sagði stoltur "grunnskólakennari". Í stað þess að fara í næstu spurningu þá missti spyrillinn út úr sér "æ greyið"!!!!

 

Lifið heil

Rósa 


Áhugaverður útvarpsþáttur

Langaði að vekja athygli ykkar á útvarpsþáttaröð sem hefur göngu sína á morgun laugardaginn 8. mars. Ekki vanþörf á að hefja kennarastarfið til vegs og virðinga.

Útvarpsþáttaröð um kennara og kennarastarfið hefst á Rás 1 klukkan 14:40 á morgun, laugardag. Þættirnir verða sex talsins og eru 40 mínútur hver.

Dagskrárgerðarmenn eru Anna Margrét Sigurðardóttir og Leifur Hauksson.

Elna Katrín Jónsdóttir og Kristín Elfa Guðnadóttir komu hugmyndinni á framfæri og unnu að undirbúningi þáttanna fyrir hönd KÍ, og afmælisnefndar KÍ og KHÍ í tilefni af hundrað ára afmæli Kennaraskólans (síðar Kennaraháskólans).

Þættir þar sem fjallað er um kennarann og kennarastarfið fyrr og nú frá ýmsum hliðum. Hvað dregur fólk að kennarastarfinu? Hvað er skemmtilegt, leiðinlegt, áhugavert, erfitt eða spennandi við þetta starf? Við ræðum líðan kennarans í skólastofunni, hvaða áhrif kennarar geta haft í lífi nemenda sinna, samskipti við foreldra og aðra kennara, kynjaskiptingu í kennarastétt og hlutverk kennarans sem hliðvörður þekkingar og vegvísir til framtíðar.


Síðast, en ekki síst, verður horft fram á veg. Hver er þróunin í umhverfi og starfsháttum kennara? Munu kennarar og nemendur framtíðarinnar hittast í sýndarskólastofum?

 

Góða helgi

Rósa


Að hætta að kenna

Jæja enn og aftur stend ég mig að því að velta þessari spurningu fyrir mér.  Á ég að hætta að kenna og finna mér "betri"vinnu?  Mér finnst gaman í vinnunni, ég fæ að ráða mér nokkuð sjálf, hef áhrif á vinnustaðinn og er í góðu samstarfi við stjórnendur og samstarfsfól.  En hvað er þá að trufla? Jú ég hef áhyggjur af óstöðugleika í skólum borgarinnar, of margir af mínum vinnufélögum mínum og kennurum í öðrum skólum eru að hugsa sér til hreyfings, of fáir horfa á verkefnin sem 2-3 ára ferli eða lengra.  Þetta hamlar allri þróun sem verður að eiga sér stað í skólum sem við komumst eitthvað upp úr hjólförunum.  Ég talaði við vinkonu mína - kennara- sem sagði mér að hún væri að hugsa um að hætta þessu alveg, treysti sér ekki lengur í þessi samskipti við foreldra og þessa ábyrgð sem fylgir starfi umsjónarkennarans, þetta sama hafði ég heyrt frá annarri vinkonu minni vikunni áður.  Báðar kennarar með þó nokkra reynslu.  Ég veit um of marga sem eru búnir að segja upp, búnir að ráða sig annað, búnir að skrá sig í nám eða eru komnir á aldur.  Því geri ég ráð fyrir að næsti vetur verði erfiður, ekki síst eftir að hafa hlustað á Ólaf Loftsson úrskýra árherslu í komandi kjaraviðræðum.  Ég er að velta því fyrir mér hvort ég nenni að vera í sama starfinu en vera alltaf að byrja upp á nýtt.............

Lifið heil

Rósa þreytta 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband