Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
Menntamálaráðherra og laun kennara
29.11.2007 | 18:05
Síðasta verkfall grunnskólakennara eru mörgum enn í fersku minni. Það var of langt, leiðinlegt og skilaði litlu. Ég man eftir viðtali sem tekið var við háttvirtan menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu, en þá var langt liðið á verkfallið og hún spurð hvort hún þyrfti ekki að kippa í spotta og stoppa þetta. Hún svaraði því til að launamál kennara og ástandið sem skapaðist í þessu verkfalli kæmi henni bara ekkert við. Nú leggur hún til fjögur frumvörp til alþingis um skólamál og er eitt þeirra um menntun kennara. Í því kemur fram að kennara eigi að hafa 5 ára háskólanám að baka. Grunnskólakennaranám er nú 3 ár þannig að hér bætast við 2 ár. Þetta á að gerast á nokkrum árum þannig að hægt sé að aðlaga þetta að þeim sem annast menntun kennara og eflaust opna fleiri möguleika fyrir hina sem eru með gamalt próf. En til þess að laða fólk í 5 ára háskólanám sem lýkur með kennsluréttindum í grunnskóla þarf að koma til veruleg launahækkun kennara. Þegar Þorgerður var spurð út í þetta á dögunum, taldi hún að það hlyti bara að gerast. Mér finnst einhver skítalykt af þessu öllu saman. Alveg get ég verið sammála um að breyta þurfi kennaramenntuninni en það þarf nú þegar að hækka laun kennara miðað við þá menntun og reynslu sem kennara hafa í dag en ef krafist verður 5 ára náms þá þurfum við eitthvað annað en verulegar launahækkanir. Ég er ekki viss um að auðvelt verði að ráða kennara til starfa með 5 ára háskólapróf ef við getum boðið honum 220.000 á mánuði eða hvað haldið þið.
Lifið heil
Rósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Námsferðir
26.11.2007 | 21:49
Pantaðu aðventuferð í Alviðru nú fyrir jólin, komdu á jólasýningu í Árbæjarsafn, fáðu leikhóp í skólann....... Svona hljóða tilboð sem berast okkur kennurum þessa dagana eins og reyndar alla aðra. Þetta er allt frekar skemmtileg ef ekki þyrfti að greiða fyrir þetta. Nú má ekki lengur rukka nemendur/foreldra þar sem þetta telst vera hluti af námi og nám er skylda sem ekki á að greiða fyrir. Þessar skemmtilegu ferðir eða viðburðir geta kosta nem. frá 500 til 3000 krónum, skólar geta ekki boðið upp á þessa tilbreytingu í námi nema í litlu mæli. Það kæmi mér ekki á óvart að skólabúðir úti á landi verði lagðar niður þar nema tilkomi fjáröflun. Það er samt eðlilegt að rukka fyrir mat þann sem nemendur borða í skólanum. Skóladagurinn er venjulega frá 8:10 til 14:30 og verða nemendur að koma með nesti að heiman eða að kaupa mat á staðnum. Þar sem nemendur eru skyldugir til að vera í skólanum þennan tíma væri þá ekki ráð að bjóða upp á mat þannig að öruggt væri að allir væru með mettan maga og tilbúnir í verkefni dagsins. Það mætti vera hafragrautur við komuna í skólann, ávaxtatími um 10 og svo hollur og góður hádegismatur. Nógu háir eru skattarnir.
Lifið heil
Rósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kennaranemar
19.11.2007 | 20:34
Hjá okkar hafa verið kennaranemar undanfarið. Annars vegar 2 ungar konur sem eru á síðustu metrum námsins og hins vegar þriggja manna teymi sem hefur fengið skólann úthlutað sem sinn skóla og munu sækja til okkar visku og reynslu á næstunni. Fyrra teymið var hjá okkur í nokkrar vikur og gaman var að spjalla við þær um nám og starf. En þær sögðu okkur frá því að í þeirra útskriftarhópi vissu þær ekki um neinn sem væri staðráðinn í því að fara í kennslu um leið og námi lyki. Margir ætluðu í frekara nám en aðrir ætluðu að fá sér góða vinnu. Svo er spurning hvort þetta sé ákvörðun sem nemarnir tóku áður en þeir hófu nám eða á meðan á náminu stóð. Éru of fáir af nýútskrifuðum kennurum sem skila sér í kennslu? Eru það aðeins launin sem fælir fólk frá þessari vinnu? Er það fjölmennur hópur sem endist stutt í kennslu? Þegar stórt er spurt er fátt um svör.
Hitt teymið var aðeins hjá okkur í viku og eru þau á fyrsta ári. Þeim kom á óvart að enginn af okkur reyndi að vara þau við því að leggja kennslu fyrir sig því skólafélagar þeirra sem voru nemar í öðrum grunnskólum höfðu flestir þá reynslu.
Lifið heil
Rósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Oddný í heimsókn
16.11.2007 | 20:13
Þegar Oddný Sturludóttir varð formaður Menntaráðs Reykjavíkur sendi ég henni heillaóskir og bauð hana velkomna í heimsókn. Í dag á degi íslenskrar tungu þáði hún boðið og heimsótti okkur í Korpuskóla. Hún gekk um skólann og hlýddi á fagran söng og ljóðaflutning í tilefni af deginum. Við sýndum henni skólann og lýstum fyrir henni kostum hans og göllum. Við fræddum hana um ástandið eins og við gátum og sýndi hún áhuga og skilning. Þetta heimsókn og gagnleg og vonandi skilar hún einhverjum árangri. Takk fyrir komuna Oddný.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að róast
12.11.2007 | 21:17
Jæja þá er maður komin í fréttirnar en það var aldrei markmiðið. Aðeins að opna umræður á milli kennara í Reykjavík þar sem lítið hefur farið fyrir þeim. Misjafn er hversu mikil umræða er á kennarastofum borgarinnar og hve samgangur er mikill. En það tókst og það er ég ánægð með. Í nýju fréttabréfi Félags grunnskólakennara kemur fram að ekkert verður látið uppi um áherslur í komandi viðræðum fyrr en um miðjan janúar og reyni ég að vera þolinmóð þangað til. Ég ætla að reyna að koma með skemmtilegar fréttir um skólamál þangað til.
Lifið heil
Rósa að róast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skertur skóladagur
8.11.2007 | 22:23
Í haust þegar skólinn var að byrja þá vantaði kennara á minn vinnustað og vantar enn. Skólastjórinn fór fram á það við fræðslustjóra að vera með skerta stundartöflu fyrir einhvern nemendahópinn og tók hann illa í það, sagði að hér væri skólaskylda og að skólastjóri yrði að finna lausn á þessum vanda. Kenna sjálfur ef ekkert annað væri hægt. Við sem kennum þarna fyrir bættum mörg við okkur tímum og þessu var reddað til bráðabirgða. Nú er hins vega fyrsti skólastjórinn í Reykjavík búinn að tilkynna foreldrum ákveðins hóps að skerða þurfi viðveru þeirra í skólanum vegna manneklu. Það hlaut að koma að því. Mér finnst nú ekki gott að skerða skóladag barna en held að betra sé að gera það heldur en að vera með of marga aðila til að sjá um kennsluna, ör skipti yfir daginn fyrir unga nemendur er ekki farsælt. Enda tökum við þátt í að fela vandann ef við bætum endalaust við okkur vinnu. Og ekki held ég að gæði kennslunnar séu mikil þegar kennarar eru með yfir 40 tíma á töflu. En vonandi verður þetta til að opna augu foreldra og annarra um ástandið sem ríkir á þessum vinnustöðum og hvað það er sem börnunum okkar er boðið upp á.
Lifið heil
Rósa á leið í helgarfrí
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Enn af sundkortum borgarstjóra.
7.11.2007 | 22:37
Þegar ég sendi kennurum í Reykjavík bréfkornið mitt átti ég von á viðbrögðum en ekki þessu. Takk fyrir. Vonandi segir þetta okkur eitthvað um þann baráttuhug sem býr í okkur nú þegar við siglum inn í kjarabaráttu. Flestir eru sammála mér um efni bréfsins frá Degi og margir sendu honum persónuleg bréf um álit sitt á þessum lausnum meirihlutans. En einhverjir eru að misskilja. Það er ekki þannig að ég hafi neitt á móti því að fá frítt í sund þótt það kosti mig ekki 7000 á mánuði eins og hjá honum Gísla fyrir norðan, ég hef heldur ekkert á móti því að skreppa á Þjóminjasafnið svona einu sinni á ári. Það er hitt hvernig þetta er sett fram. Við erum með of fátt starfslið í skólunum í dag og flestir eru með meiri kennslu en þeir ætluðu sér. Við erum með fleiri leiðbeinendur en áður, við erum með fleiri uppsagnir á borðum skólastjórnenda og þeir sjá ekki fram á að geta greitt úr þessari flækju sem komin er. Álagið hefur ekki verið meira þau 18 ár sem ég hef verið við kennslu. Ástæðan er of lág laun. Þá kemur þetta góða fríðindatilboð frá borgarstjórn sem á að vera eins og segir í bréfi þeirra til þess að laða að fleira hæft fólk í kennslu. Það eru markmiðin og tímasetningin sem ég er ósátt við. Fríðindi eru alltaf góð en aðeins ef þau eru veitt í góðum tilgangi.
En baráttuhugur er í fólki það finn ég þannig að enn er von.
Lifið heil
Rósa vongóða
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bréf frá borgarstjóra :-(
2.11.2007 | 16:10
Þegar nýr meirihluti tók við, með ungu og efnilegu fólki þá ákvað ég að vera bjartsýn. Nú hefur ský dregið fyrir sólu og góð ráð dýr. Í vikunni sem er að líða fékk ég bréf frá hæstvirtum borgarstjóra félagshyggjumanninum, Fylkismanninum, árbæingnum, lækninum, unga pabbanum Degi B.. Ekki persónulegt heldur sent til allra starfsmanna í grunnskólum borgarinnar og eflaust viða. Þar segir orðrétt:
- Við fáum 16.000 heilsuræktarstyrk höfðum 10.000 kr. síðan eigum við eftir að greiða skatt af þessu. Árskort í sundlaugina, verst að geta ekki notað það kort í Bónus! Bókasafnskort, árskort í Húsdýra og fjölskyldugarðinn og safnakort. Ég veit ekki hvort öll þessi kort séu fyrir mig sem einstakling eða hvort þetta séu fjölskyldukort en ef þetta eru kort með aðgangi fyrir einn kallar notkun þeirra á meiri útgjöld fyrir mig sem fjölskyldumanneskju. Ef ég skrepp á Þjóðminjasafnið nenni ég ekki ein heldur tek kallinn og börnin með og þarf því eflaust að borga fyrir þau, nema ég fari á miðvikudegi´, en þá kemur kortið frá Degi ekki að neinum notum. Þannig að þetta er eins og gylliboðin sem Neytendasamtökin hafa verið að vara við. Fríðindi sem kalla á aukin útgjöld. Ætlum við að þiggja þetta þegjandi og hljóðalaust.
- Tvö hundruð milljónum verður ráðstafað í sérstakan "pott" sem stjórnendur þeirra stofnana sem glíma við manneklu geta notað til þess að umbuna starfsfólki sínu vegna margs konar álags eða til að bæta starfsanda á annan hátt. Skólastjórinn minn hefur eflaust fengið reglunar þannig að strax eftir vetrarfrí þá ætla ég að athuga hvernig þetta virkar. Kannski erum við öll á leiðinni í helgarferð á Egilstaði. Nema skilgreining á manneklu sé öðruvísi en mín.
- Starfsfólk leikskóla, grunnskóla (1.-4.bekk) og hjúkrunarstofnana sem skylt er að snæða hádegismat með þjónustuþegum sínum - og kýs að taka ekki styttri vinnutíma á móti - mun, frá og með 1.október, fá greitt fyrir þær stundir í yfirvinnutímum. Hugsið ykkur að þetta þurfi að setja inn sem bitlinga. Er þetta ekki bundið í kjarasamning ég bara spyr?
- Starfsfólk sem býr að reynslu úr sambærilegum störfum úr öðrum sveitarfélögum eða ríki mun frá og með 1.nóvember fá þá reynslu metna inn í kjör sín hjá Reykjavíkurborg. Fyrir mig persónulega að ef ég skipti um skólastig fæ ég enn hærri laun á leikskóla heldur en í grunnskóla þar sem mín 18 ár í kennslu verða að fullu metin en ekki 10 eins og er í dag. Vei.
- Foreldri mun fá forgang fyrir börn sín á frístundaheimili og/eða leikskóla á meðan það starfar á þessum stofnunum. Þetta er jákvætt fyrir fólk með ung börn en gagnast ekki nema hluta af kennurum í grunnskólum þeir eru í meirihluta yfir 40 ára með eldir börn.
Auk þessa er kveðið á um ýmsar frekari aðgerðir sem er m.a. ætlað að laða að starfsfólk úr hinum ýmsu þjóðfélagshópum, eins og úr röðum námsmanna og eldra fólks, og að gera starfsfólki sem ekki býðst full vinna, eða takmörkuð yfirvinna, kleift að auka við sig í starfi innan borgarinnar, ef það svo kýs.
Ekki getur þetta komið að góðum notum þegar vantar kennara, eldra fólk og námsmenn eru jú ágætir en með ekkert kennarapróf þá dugar það skammt. Eða er það ekki stefna nýs meirihluta að reyna að laða til sín menntað fólk í kennslu heldur að ráða "gott" fólk úr hinum ýmsu þjófélagshópum. Ekki líst mér á. Allur vindur farinn úr blöðrunni og eftir sitjum við og glímum við mannekluna með okkar sniði. Nokkrir búnir að segja upp, nokkrir á leið í fæðingarorlof, einn kominn á aldur, enginn sækir um og við hin sitjum eftir, nögum neglurnar, reynum að brosa framan í börn og foreldra og gerum uppkast af uppsagnarbréfi.
Lifið heil og skellum okkur í sund ..................ein
Rósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)