Draumar eiga að rætast
10.6.2008 | 09:40
Litli bróðir minn sagði við stóra bróður að allir ættu að eiga sér drauma, en það væri ekki nóg heldur ættu við að láta þá rætast. Stóri bróðir tók hann á orðinu og fór og keypti sér mótorhjól. En mér datt þetta í hug í gærkvöldi þegar ég kom heim eftir helgarferð til Kaupmannahafnar. Þangað fór ég með foreldrum mínum. Pabbi sagði þegar ég skilaði þeim heim þreyttum en glöðum að þetta hafi verið góð ferð og 50 ára draumur mömmu hafi ræst. Foreldrar mína hafa ekki ferðast mikið og mamma fór í sína fyrstu utanlandsferð eftir sextugt. Þegar hún var unglingur þá bjó föðursystir hennar í Köben þar sem hún var ráðskona hjá Stefáni Jóhanni sendiherra og heyrði hún skemmtilegar sögur frá borginni. Ég vissi af þessum draumi og ákvað í vor að láta hann verða að veruleika og það tókst. Við fórum í þessa stuttu en skemmtilegu ferð, fengum sól og hita allan tímann. Skoðuðum alla borgina, gengum tugi kílómetra og fórum í siglingu. Við borðuðum á hundgömlum veitingastöðum og drukkum öl, skoðuðum kastala og postulín. Draumurinn rættist og nú þarf mamma að finna sér nýjan draum.
Lifið heil
Rósa rauða
Athugasemdir
Gaman að lesa bloggið þitt Rósa. Þarna hefur þú gert mikið góðverk sýnist mér, látið draum mömmu þinnar rætast. Takk fyrir góðar kveðjur og óskir í minn garð. Það verður ekki auðvelt að taka við starfi eftir tvær manneskjur og það svona rótgrónar, en þetta er góð tilbreyting áður en ég staðna.
Steinunn Þórisdóttir, 10.6.2008 kl. 20:27
Ég held Steinunn að þetta sé ekki síður góð tilbreyting fyrir alla hina.
Rósa Harðardóttir, 10.6.2008 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.