Býflugur og helvíti
13.5.2008 | 23:19
Ég er bókaormur og elska að lesa. Er svo heppin að vera í leshring með núverandi og fyrrverandi vinnufélögum. Við höfum hist lítið í vetur vegna anna en hittumst í kvöld. Byrjuðum á því að fara á Santa María, mexíkanskan veitingarstað við Laugarveginn og fá okkur að borða. Frábær staður, ódýr og maturinn góður. Fékk mér Mole sósu eins og Hrannar mælti með. Eftir það fórum við í Mál og Menningu og drukkum kaffi. Og þá hófst spjallið. Tvær bækur lágu undir í kvöld, Leyndardómur býflugnanna eftir Sue Monk Kidd. Og síðari bókin var jólagjöfin í ár Himnaríki og helvíti. eftir Jón Kalmann Stefánsson. Sitt sýndist hverjum og það er svo gaman. Flestir höfðu gaman að þeirri fyrrnefndu en færri að hinni. Vorum samt sammála um að hún væri vel skrifuð, algjört konfekt en okkur þykir víst ekki öllum sömu bitarnir góðir. Á öllum góðum bókmenntakvöldum er upplestur og það var líka hjá okkur. Skólastjórinn las eftirminnilegan kafla úr Himnaríki sem ég læt fylgja með hér:
Bros Brynjólfs myrkvast aðeins þegar hann hugsar um Ólafíu. Hún horfir stundum á hann með þessum stóru augum sínum sem minna á augu í döprum hesti, ..................................................................Brynjólfur er aftur orðinn dapur, heldur áfram ráfi sínu, ranglar um gamla hverfið, dapur yfir lífi sínu, að a hafa ekki lengur ánægju af því að snerta Ólafíu, það er ekki vegna þess að þungu brjóstin hennar hafi misst fyllingu sína, ekki vegna þess að líkami hennar virðist hafa gránað, nei, það er eitthvað allt annað, hann veit bara ekki hvað það er og óvissan er eyðandi afl. Stundum verður hans beinlínis reiður þegar döpur hestaaugun elta hann um litlu íbúðina...................(JKL 2007 bls: 175-176)
Reynum að missa ekki ánægjuna og láta óvissuna taka völdin, það er kúnst.
Þessa bók verður að lesa hægt til þess að finna og njóta bestu konfektmolanna.
Lifið heil
Rósa
p.s næstu bækur sem lesnar verða eru Kona fer til læknis og Kuðungakrabbarnir.
Athugasemdir
En spennandi Bækur eru svo brjálæðislega brilliant uppfinning að það hefur aldrei neitt náð að toppa þær. Eiga eftir að "lifa" að eilífu - ef við pössum upp á lesturinn og lestrarkennsluna. Finnst svona leshringir svo sniðugir - hef reyndar aldrei verið í svoleiðis - en þetta hljómar mjöööög vel.
Las Karitas án titils og Óreiða á striga um daginn og er enn uppnumin.
Anna Þóra Jónsdóttir, 14.5.2008 kl. 00:32
Góða skemmtun við að lesa báðar næstu bækur þær eru mjög góðar hvor á sinn hátt og það verða örugglega fjörugar umræður um þær, búin að lesa þær báðar hér í sólinni á Spáni of er farin að hlakka til að hitta ykkur í haust í bókaklúbbnum
sólarkveðjur og njótið lestursins.
Svanhildur
Svanhildur María Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 21:09
Já Anna Þóra þetta er spennandi, svo gaman að hitta fólk með sömu áhugamál. Við reynum að velja mismunandi bækur sem geta höfðað til margra. Pínu kennaralegt er það ekki. Sú sem hef vakið mestan óhug er Næturvaktin eftir japönsku skáldkonuna Kirino.
Svanhildur ert þú bara búin með bækurnar, ekki lengi að þessu. En þú veist að það dregst svo oft á langinn að hittast þannig að það er aldrei að vita nema þú verðir komin heim áður en við hittumst. Bið að heils Helgu Ben frétti að hún væri að leiðinni til þín.
Rósa Harðardóttir, 15.5.2008 kl. 22:00
Skemmtilegt! Ég er nú skráð í leshring hér á blogginu en hef aldrei prófað svona leshring eins og þú ert í - langar samt til þess, held að það sé skemmtilegra. Það á að taka fyrir Flugdrekahlauparann á sunnudaginn og næst á eftir "Þúsund bjartar sólir" og svo "Arabíukonur".
Edda Agnarsdóttir, 17.5.2008 kl. 15:22
velkomin í bloggvina hópin hafðu ljúfan sunnudag
Brynja skordal, 18.5.2008 kl. 00:51
Já Edda þetta er skemmtilegt. Við hittumst alltaf á kaffihúsum og oft eru fleiri bækur ræddar. Það er svo gaman að heyra hvernig aðrir upplifa sama hlutinn á ólíkan hátt.
Rósa Harðardóttir, 18.5.2008 kl. 22:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.