Trúarbragðafræðsla eða kristniboð
24.7.2007 | 23:24
Í Morgunblaðinu í gær mánudaginn 28.júlí var grein eftir Véstein Valgarðsson sagnfræðing um kristinfræðikennslu í grunnskólum. Mér finnst alltaf skemmtilegt að fylgjast með þessari umræðum sem stóð hæst s.l vetur. Vésteinn telur að í orrahríðinni í vetur hafi fólk ekki verið að mótmæla kristinfræðikennslu heldur trúboði. Hann segir að það sé tvennt ólíkt að boða og útskýra þar er ég sammála en kennarar þurfa að gera sér grein fyrir að það er ekki markmið með kennslunni að nemendur öðlist aukna trú á guð. Við erum svo sannarlega ekki að boða kristna trú heldur fræða. Nemendur eiga að þekkja sögurnar sem margar hafa siðferðilegan boðskap.En nemendur eiga rétt á að kynnast öllum trúarbrögðum jafnvel þannig að þeir eigi betur með að skilja og taka afstöðu.
Ég skal segja ykkur frá minni kristinfræðikennslu. Þegar ég byrjaði að kenna fannst mér kristinfræðikennsla frekar leiðinleg og mætti hún gjarnan afgangi eins og hún gerir enn í dag hjá fjölda kennara. Frægt er orðið á kennarastofunni í mínum skóla spurningin sem einn kennarinn fékk fyrir próf í "Sigga eru báðar blaðsíðurnar til prófs"! En ég skildi ekkert í þessum sögum. Það eina sem ég kunni var það sem séra Guðmundur hafði kennt mér í sunnudagaskólanum. Þegar ég settist svo niður með vinkonum mínum úr kristinfræðivali og þær útskýrðu fyrir mér Biblíuna og sögurnar sem hún segir með hliðsjón af tímatalinu og í sögulegu samhengi þá fékk ég áhuga og fór fyrst að skilja. Eftir það fannst mér gaman að kenna þessi fræði því ég skildi þetta sjálf, hafði áhuga og las mér til. En ég kenni þetta eins og sögur ekki sem heilagan sannleik og jafnhliða kennslu í kristnum fræðum fá nemendur kennslu í öðrum trúarbrögðum og eru það með allra skemmtilegustu tímum sem ég kenndi s.l vetur. Það tók ég fyrir Gyðingdóm og Íslam en ekki neina kristinfræði og voru nemendur áhugasamur og forvitnir. Auðvitað þurfum við að huga að hlutleysi við kennslu eða kynningu á jafn viðkvæmu máli og trúarbrögðum. Og auðvitað þurfum við að gera öllum trúarbrögðum jafn hátt undir höfði. Í ljósi þess að þjóðfélagið er orðin fjölmenningarlegt er þörf á því að endurskoða þessi mál í íslenskum skólum, auka fræðslu til kennara og aðgengi að efni. Við þurfum á fræðslu að halda til að minnka fordóma því þeir eru sprottnir vanþekkingu. Við þurfum að auka víðsýni nemenda með von um að það auki virðingu þeirra fyrir fólki af ólíkum uppruna.
Lifið heil
Rósa
Athugasemdir
Sæl vonandi er það nú svo og ég vel að trúa því að flestir kennarar séu að fræða en ekki boða, en því miður hef ég nú líka séð hitt. T.d. heimsótti ég grunnskóla þar sem á töfluna var rituð bæn dagsins. Þegar ég spurði var mér svarað að þetta væri fyrirkomulagið á kennslu í kristinfræði hjá yngstu bekkjardeildunum. Því miður eru ekki mörg ár, hvað þá áratugir síðan þetta var. Ég hef líka velt fyrir mér hvaða erindi kirkjan telur sig eiga inn í t.d. leikskóla eða það sem kallast vinaleið í grunnskóla. Kannski er það ástæða þess að fólk út í samfélaginu telur að í skólum sé stundað trúboð. Hvort sem samfélagið er að verða fjölmenningarlegt eða ekki verða allir að vanda sig. Og auðvitað er það sjálfsagt að í skólum sé kennt um öll helstu trúarbrögð heims. Með því að gera það er verið að vinna gegn fordómum og auka skilning. Kannski er þarna líka brotalöm hjá okkur sem kennum kennaranemum. Á öllum skólastigum.
Kristín Dýrfjörð, 25.7.2007 kl. 00:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.