Námsmat - 1. þáttur

Frá því að ég byrjaði að kenna hef ég haft áhuga á námsmati.  Fyrsti skólinn sem ég kenndi í var skóli þar sem skapandi vinna var í hávegum höfð og skólastjórinn sagði mér að próf væru helst ekki lögð fyrir nemendur fyrr en í 7. bekk en það var síðasti bekkur skólans.  Þetta fannst mér flott og hentaði mér vel.  Ég byrjaði með yngri krakkana og námsmat var í formi umsagna um allt það sem skipti máli í skólagöngu þeirra og í formi reglulegra námsmatsviðtala við forráðamenn.  En þetta átti eftir að breytast.  Þegar nemendur komu í 4. bekk  var farið að lauma prófum inn því það var  þægilegt fyrir kennarann, gömul próf til í möppu og annaðhvort gat krakkinn þetta eða ekki.  Smátt og smátt var þetta ofan á hjá flestum kennurum í 4.-7.bekk og próf með tilheyrandi stakri tölu urðu vinsæl.  Nú þegar sonur minn var  að klára 7. bekk í þessum sama skóla var spennandi að sjá vitnisburðinn.  Hann fékk hann afhentan við virðulega athöfn á hátíðarsal skólans ásamt rós og kaffiveitingum.  Svo kom blaðið upp úr umslaginu.  Og viti menn eftir 7 ára skólagöngu fékk barnið vitnisburð í 16 fögum í formi einkunna á skalanum 0-10. Ekki eitt orð um hvernig honum hefði gengið, þakkir fyrir samveruna eða óskir um gæfu í nýjum skóla.  Ég varð vitni að samræðum milli  drengja úr vinahópnum þegar þeir tóku að bera saman bækur sínar eins og venja er. 

A: Heyrðu hvað fékk ég eiginlega í kristinfræði?

B: Já kíkjum á það.

A: Ha það vantar einkunn í kristinfræði.

B: Já manstu ekki við tókum ekkert próf í því.

A: Mér finnst nú að við hefðum getað fengið einkunn þrátt fyrir það.

Mér fannst gaman að heyra að 12 ára drengir hafi sömu skoðun og ég.

En er námsmat sama og prófseinkunn eða liggur eitthvað meira þar að baki? Ég er þeirrar skoðunar að víða sé pottur brotinn í vinnu við námsmat og vil sjá aukna umræðu og framfarir í námsmati í grunnskólum landsins.

Meira næstu daga.

lifið heil

Rósa með prófkvíða


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa kveikju á þörfu umræðuefni, Rósa

"Námsmat" er í of mörgum skólum einfaldað um of þ.e.  námsmat=próf. Í mínum huga er "Námsmat" miklu meira og eiginlega aðalatriðið í námi hvers og eins..."Námsmat" er til að hjálpa nemendum að læra...eins og segir nokkurn veginn í Aðalnámskrá...þ.e. leiða nemendur áfram á sínum hraða. Getur t.d.  sama próf á sama tíma fyrir alla nemendur hjálpað öllum að læra í raun og veru? Er kannski bara verið að kveða ákveðinn dóm til að foreldrar geti borið börnin sín saman við önnur börn á sama aldri?...viðhalda hefðinni?... þó svo að við vitum ósköp vel að aðrar aðferðir eru betri. Gleymum því ekki að "Námsmat" fer fram á hverjum degi í skólanum og er órjúfanlegur hluti af kennslunni, við erum bara ekki alltaf að skrá það....þorum að breyta og bæta...það er engu að tapa, allt að vinna. Munum bara að "Námsmat" er ekki bara risastórt hugtak heldur líka risasmátt....eða þannig. Ættum við kannski að breyta heitinu og tala frekar um "Hvatningu" eða "Umsögn og Hvatningu".....sem gæti e.t.v. þokað okkur áfram í að gera alla nemendur að sigurvegurum en ekki bara suma. Sum hugtök/heiti geta nefnilega heft framgang hugmynda...eða hvað??

góð kveðja,

Áslaug 

Áslaug Ó. Harðardóttir (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 21:40

2 Smámynd: Karl Tómasson

Maður fer ekki í megrun af honum.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 23.7.2007 kl. 02:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband