Menntamálum snúið á hvolf!
8.7.2007 | 18:18
Þegar helgarblöðin komu inn um lúguna á laugardagsmorgni þá var þessi skemmtilega fyrirsögn neðst í hægra horni Fréttablaðsins " Haarder snýr öllum menntamálum á hvolf. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, kom mér vel fyrir með kaffibollann og hugðist lesa mér til um hvað væri um að vera hjá Dönum en Haarder þessi ku vera menntamálaráðherra þeirra og í blaðinu var viðtal við hann. Ekki kom vel í ljós í þessu viðtali hvernig hann setti allt á hvolf en hann gerði það miklar breytingar á menntamálum þeirra að kennaraforystan setti allt á annan endann. En hverju breytti hann? Þessar breytingar miðast við að auka svigrúm skóla og auka gæði skólastarfsins með því að nýta betur þekkingu kennara. Ekki svo fráleit markmið. En margt getur falist í þessu og erfitt er að skilja hvað það er sem kennaraforystan setti sig upp á móti. Hann vill auka gæði kennslunnar eins og við öll með einstaklingsmiðuðum áherslum. En eitt af því sem er hann hefur komið á eru samræmd próf og fannst mér sú framkvæmd harla merkileg í ljósi þess að mér hefur fundist sú leið hjá Dönum að prófa sem minnst vera spennandi kostur. En sú er ekki raunin í dag þar sem prófað er í 12 fögum árlega með rafrænum hætti. Ekki veit ég hvort hver nemandi taki 12 samræmd próf á ári en geri frekar ráð fyrir að þessu sé skipt niður á árganga en allt er þetta gert með rafrænum hætti og hljóta danskir skólar að vera vel tölvuvæddir því ekki get ég séð þetta virka vel í mínum skóla þar sem eru 230 nem. og 14 tölvur. Í viðtalinu kom ekki margt annað fram sem skýrt gat óánægju danskra kennara en eitt vakti athygli mína og áhuga en það var þessi setning:"Sautján prósent allra þeirra sem ljúka námi í grunnskólum geta ekki lesið nægilega vel til þess að halda áfram í námi, og vinna þannig betur úr hæfileikum sínum." Þetta finnst mér mjög áhugavert og spyr hvernig er þessu háttað hjá okkur og hver eru þessi mörk? Ég er nefnilega þeirrar skoðunar eftir 18 ára kennslu að betur má ef duga skal. Við þurfum að huga betur að lestrarkunnáttu þeirra sem úrskrifast úr grunnskólum í dag. Margir framhaldsskólakennarar kvarta undan lélegri lestrarfærni þeirra sem eru að hefja nám í framhaldsskóla, að þeir séu ekki færir um að lesa þær námsbækur sem lagðar eru fram. Í grunnskóla eru oft gerðar of litlar kröfur um lestarfærni nemenda sem kemur þeim í koll í áframhaldandi námi, lesturinn eru jú grundvallarfærni sem við þurfum að hafa til þess að koma okkur áfram hvaða braut sem við veljum okkur.
Lifið heil
Rósa lestrarhestur
Athugasemdir
Ýmis hérlendis mega vart vatni halda af hrifningu á Finnum, en í ljós kemur að þar er lítið um samræmd próf, heldur er kennurum treyst. Það hefur líka síðan 1979 verið krafist meistaraprófs af kennurum, a.m.k. í grunn- og framhaldsskólum. Íslendingar leggja þó nokkurt fé hlutfallslega til leik- og grunnskóla miðað við önnur lönd en beinlínis lítið til háskóla miðað við önnur vestræn lönd (upplýsingar frá Hagstofunni). Aukum aðgengi fólks að háskólanámi - það er fjarri því að vera nógu gott.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.7.2007 kl. 07:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.