Út úr bænum
6.7.2007 | 15:01
Í dag er föstudagur og þótt veðurspáin sé ekkert sérstök þá eru landsmenn að gera felliblokkirnar sínar klárar fyrir útilegur helgarinnar. Ég ætla hins vegar að vera heima um helgina og slappa af. Læt ekki draga mig í útilegu nema nokkuð öruggt sé að veðrið verði gott. Helst vildi ég gista á hóteli. En ég brá mér út úr bænum í tvígang þessa viku. Á mánudag fékk ég upphringingu frá góðri vinkonu sem bauð mér með í verslunarferð út úr bænum. Já þetta var aldeilis skemmtileg ferð. Um kl. 19 á mánudagskvöld þá þeystu 8 kellingar á hópferðarbíl austur fyrir fjall í búð sem heitir því skemmtilega nafni Sveitabúðin Sóley. Þessi búð er á bænum Tungu í Gaulverjabæjarhreppi og Sóley húsfreyjan á bænum rekur búðina í gömlum bílskúr við bæinn. Búðin minnir á danskar sveitabúðir og þarna er hægt að kaupa kerti, bolla, glös, munnþurrkur og margt fleira. Ef þú átt leið austu t.d á Stokkseyri þá mæli ég með því að þú skellir þér í búðina. Eftir að hafa verslað heilmikið þá var haldið heim á leið en gert stutt stopp á Eyrarbakka og áð í gömlu húsi með tilheyrandi trakteringum.
Seinni ferð mín úr bænum í vikunni var í gærkveldi þegar ég gerði mér ferð með vinkonum mínum úr leshringnum á Þingvelli í fimmtudagsgöngu. En á Þingvöllum er boðið upp á fræðslugöngur á fimmtudagskvöldum í sumar og er efni hverrar göngu mismunandi. Í gær var yfirskriftin "Glæpasviðið Þingvellir" og var það alþingiskonan Katrín Jakobsdóttir sem leiddi gönguna. Þar fjallaði hún um sögusviðið Þingvelli í íslenskum glæðasögum og fjallaði einnig um þróun glæpasagna á Íslandi. Katrín er skemmtilegur sögumaður og skörungur í allri framkomu þannig að unun var á að hlusta. Eftir gönguna brugðum við stöllurnar okkur á Valhöll þar sem ég eyddi einu sumri í den og fengum okkur heitt kakó. Vel heppnað fimmtudagskvöld.
Lifið heil
Rósa í bænum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.