Kennaraskortur í haust?
4.7.2007 | 15:57
Nú er sumarið í hámarki og kennarar og annað starfsfólk skóla í sumarfríi. Skólastjórnendur fóru síðastir út í sumarið og eflaust margir með kvíðahnút í maganum. Nú er góðæri í þjófélaginu og þegar svoleiðis ástand er þá hverfa margir kennarar til annarra starfa. Síðustu samningar voru ekki hagstæðir þannig að margt hvetur kennara til þess að leita nýrra leiða. Hnúturinn í maga skólastjórans verður þar þangað til komið er aftur til starfa eftir verslunarmannahelgi. Þá þarf að hefjast handa þar sem frá var horfið í ráðningarmálum fyrir skólaárið 2007 - 2008. Þegar farið er inn á heimasíður bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þá kemur í ljós að það vantar rúmlega 100 kennara á þessu svæði. Þar af vantar um það bil 75 kennara í Reykjavík samkvæmt auglýsingum frá Menntasviði Reykjavíkur. Hvað verður gert ef ekki fæst fólk með tilskilin réttindi til starfa? Ekki getum við farið fram á að foreldrar haldi börnunum heima svo eins og einn dag í viku til þess að brúa þetta bil. Eða getum við ráðið pólska verkamenn í djobbið eða er hægt að fjölga nemendum í bekkjunum og fækka kennslustundum. Hvað finnst ykkur? Verður þetta vandamál eða ekki? Gæti verið ráð að hækka launin? Ljóst er að þar sem tekst að ráða í allar stöður þá er það ekki gulltrygging fyrir því að valinn maður sé í hverju rúmi heldur aðeins að maður sé í hverju rúmi!!
Lifið heil
Rósa í sumarfríi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.