Jelgava dagur 3
3.3.2010 | 21:41
Í dag byrjuðum við á því að skreppa hér út í skautahöllina sem er sambyggð hótelinu en þar byrja nokkrir krakkar skóladaginn um kl. 8. Strákarnir voru á íshokkíæfingu á meðan stelpurnar voru á listskautum. Síðan fara þau í skólann. Þegar upp í skóla var komið fórum við Svanur í keilutíma sem var að þessu í skólanum ekki í keilusal. Þetta var yogatími en þau sem eru í keilubekknum fá einn jógatíma á viku. Frábær tími og gaman að fylgjast með þessum 8 ára einbeittu krökkum. Eftir stuttar frímínútur fórum við Þura í trúarbragðafræði. Við vissum ekkert hvers konar tími þetta yrði og hann kom okkur á óvart. Stofan var um 10 fm. Og aðeins 6 krakkar. Kennarinn las upp úr biblíunni og krakkarnir fylgdust með í sinni. Síðan var spurt og spjallað og þau gerðu litla æfingu ásamt því að hlusta á lestur nútíma sögu sem var í tengslum við biblíutextann. Í upphafi og lok tímans var farið með bæn. Foreldrar velja hvort nemendur fá kristinfræðikennslu og á meðan þau eru í þessum tíma eru bekkjarfélagar þeirra í almennri siðfræði. Í kaffitímanum í dag fengum við bolludagsbollur og Björg var himinlifandi.
Eftir þetta fórum við á sal en í heimsókn kom hópur frá Fun Song en það er fyrirtæki í Bretlandi sem heldur út heimasíðu og námskeiðum fyrir enskukennara með áherslu á söng og leik. Þetta var virkilega skemmtilegt og minnir okkur á hvað leikur í skólastarfi er mikilvægur.
Síðan var haldið í Workshop hjá henni Gunta. Hún kynnti fyrir okkur kennsluaðgerðina CLIC eða Content language intergrated learning eða tvíþætt nám. Í stuttu máli má segja að CLIL sé yfirheiti yfir ýmsar skyldar aðferðir sem leggja áherslu á að samþætta kennslu í námsgreinum og tungumálum, s.s. bilingual content teaching" og contentbased language teaching". Það sem hér er átt við er að námsgrein og tungumál eru samþætt, t.d. saga og þýska eða landafræði og enska, þannig að kennt er á erlenda málinu en báðar greinar vega jafnt, bæði hvað við kemur markmiðum, innihaldi og mati. Talað er um CLIL sem aðferð en ekki sem aðferð í tungumálakennslu eingöngu, heldur er lögð jöfn áhersla á bæði tungumálið og hina námsgreinina. Tungumálið er inntak miðilsins. Það má segja að CLIL felist í eftirfarandi: Teaching a subject through a foreign language, not in a foreign language". Það er mjög mikilvægt að bæði greinin og tungumálið standi jafnfætis.
Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt og margt af því sem hún fór í erum við að gera í tengslum við Byrjendalæsi. En enn og aftur vorum við minnt á það hversu mikilvægt er að brjóta upp kennslu með leikjum og þrautum hvort sem það tengist námsefninu eða ekki.
Eftir hádegismat var haldið áfram og síðan enduðum við á þjóðminjasafninu en þá voru allir frekar þreyttir.
Eftir að hafa skolað af sér far farið út að borða og enn og aftur þriggja máltíð með svínakjöti í aðalrétt. Þegar við komum heim á hótel þá undirbjuggum við kennslu morgundagsins og í háttinn snemma.
Lifi heil
Rósa
Flokkur: Menntun og skóli | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.