Reykingar

Var að lenda rétt í þessu eftir dásamlegar 2 vikur á Tenerife.  Þetta var yndislegur tími með hluta af fjölskyldunni og öðrum gestum á besta aldri.  En eitt vakti sérstaka athygli mína og sonar míns sem er 12 ára og það voru reykingar.  Á Tenerife þá var reykt allsstaðar.  Ef maður lagðist á bekk í sundlaugargarðinum þá var næstum öruggt að breska kerlingin á næsta bekk settist upp og fengi sér smók á milli þess sem hún makaði olíu á stóran kroppinn og tuskaði börnin sín til.  Þegar við hvíldum okkur á sólböðum og skruppum í göngu eftir strandgötunni eða niður "Laugarveginn" þá átti maður alveg eins von á því að fá sígarettuna í lærið.  Á kvöldin stunduðum við hina ýmsu mjög svo frambærilegu veitingastaði sem þarna voru og það var ekki að spyrja að því þegar steikin var komin á borðið þá var karlinn á næsta borðin búin með sína og fékk sér smók.  Ég er ekki mjög fanatísk á reykingar og margir af mínum bestu reykja en þetta fannst mér aðeins og mikið.


Jólabókalestur

Jæja þá eru jólin yfirstaðin og nú hefst lesturinn.  Í fyrstu hélt ég að ekki væri neitt bitastætt í jólabókaflóðinu í ár en þegar betur er að gáð þá er þar heilmargt sem hægt er að stytta sér stundir með.  Ég hef lokið við nokkrar,  Brestir í Brooklyn sem mér fannst ákaflega skemmtileg aflestrar, ljúf og góð sem rann vel.  Næsta bók var ekki eins skemmtileg en var samt kláruð og var það nýja bókin frá Dan Brown Hringur Tankados, hún var ekki eins sannfærandi og aðrar bækur efir Brown en spennandi eftir miðja bók og lagði ég hana ekki frá mér fyrr en hún var búin.  Það eru margar bækur á náttborðinu mínu um þessar mundir og þar sem ég er að fara í langt veikindaleyfi geri ég ráð fyrir að hafa tíma til lestrar.  Ein af þeim er bókin Borgarstjórinn í Casterbridge eftir skáldjöfurinn Thomas Hardy og eftir að hafa lesið fyrstu 100 blaðsíðurnar lofar hún hún góðu en  meira um það seinna.

Dansað við engil

Ég var að ljúka við lestur bókarinnar "Dansað við engil" sem er eftir einn af þekktustu glæpasagnahöfundum Svía Åke Edwardson.  Bókin fjallar um morð á ungum svíum bæði í Gautaborg og heimsborginni London en það er rannsóknarlögreglumaðurinn Winter sem fær að fást við þetta mál.  Ég hef ekki lesið neitt eftir þennan höfund áður en varð hrifin.  Ég er sérlega áhugasöm um norrænar glæpasögur og varð glöð þegar ég rakst á eitthvað ólesið.  Bókin er spennandi nánast frá fyrsta kafla og heldur manni í greipum næstum að lokum mér fannst reyndar síðasti kaflinn of langur.  Bókin er vel skrifuð og hefur yfir sér musikalskan blæ þar sem víða er vitnað í tónlist sem sögupersónur hafa yndi af.  Hún hafði þau áhrif á mig að ég skellti mér á Lime wire og gróf upp tónlist sem minnst var á í bókinni.  Ég gef þessari bók 4 stjörnur.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband