Bréf frá borgarstjóra :-(

Þegar nýr meirihluti tók við, með ungu og efnilegu fólki þá ákvað ég að vera bjartsýn.  Nú hefur ský dregið fyrir sólu og góð ráð dýr.  Í vikunni sem er að líða fékk ég bréf frá hæstvirtum borgarstjóra félagshyggjumanninum, Fylkismanninum, árbæingnum, lækninum, unga pabbanum Degi B..  Ekki persónulegt heldur sent til allra starfsmanna í grunnskólum borgarinnar og eflaust viða. Þar segir orðrétt:

Nýr meirihluti ákvað að umbætur í starfsmannamálum væri verkefni sem ekki væri hægt að bíða með að takast á við. Því var gengið í það strax á fyrsta starfsdegi nýs meirihluta - síðastliðinn miðvikudag - að stíga fyrsta skrefið í átt til þess að gera Reykjavík að eftirsóknarverðari vinnustað, eins og við orðum það, og til þess að koma til móts við hið mikla álag sem starfsmenn á ýmsum grundvallarþjónustustofnunum borgarinnar hafa mátt þola vegna langvarandi manneklu.
Hvað ætla þeir svo að gera til þess að laða að hæft fólk. Jú skoðum þetta:
  1. Við fáum 16.000 heilsuræktarstyrk höfðum 10.000 kr. síðan eigum við eftir að greiða skatt af þessu. Árskort í sundlaugina, verst að geta ekki notað það kort í Bónus! Bókasafnskort, árskort í Húsdýra og fjölskyldugarðinn og safnakort.  Ég veit ekki hvort öll þessi kort séu fyrir mig sem einstakling eða hvort þetta séu fjölskyldukort en ef þetta eru kort með aðgangi fyrir einn kallar notkun þeirra á meiri útgjöld fyrir mig sem fjölskyldumanneskju.  Ef ég skrepp á Þjóðminjasafnið nenni ég ekki ein heldur tek kallinn og börnin með og þarf því eflaust að borga fyrir þau, nema ég fari á miðvikudegi´, en þá kemur kortið frá Degi ekki að neinum notum. Þannig að þetta er eins og gylliboðin sem Neytendasamtökin hafa verið að vara við. Fríðindi sem kalla á aukin útgjöld.  Ætlum við að þiggja þetta þegjandi og hljóðalaust.
  2. Tvö hundruð milljónum verður ráðstafað í sérstakan "pott" sem stjórnendur þeirra stofnana sem glíma við manneklu geta notað til þess að umbuna starfsfólki sínu vegna margs konar álags eða til að bæta starfsanda á annan hátt. Skólastjórinn minn hefur eflaust fengið reglunar þannig að strax eftir vetrarfrí þá ætla ég að athuga hvernig þetta virkar.  Kannski erum við öll á leiðinni í helgarferð á Egilstaði. Nema skilgreining á manneklu sé öðruvísi en mín.
  3. Starfsfólk leikskóla, grunnskóla (1.-4.bekk) og hjúkrunarstofnana sem skylt er að snæða hádegismat með þjónustuþegum sínum - og kýs að taka ekki styttri vinnutíma á móti - mun, frá og með 1.október, fá greitt fyrir þær stundir í yfirvinnutímum. Hugsið ykkur að þetta þurfi að setja inn sem bitlinga.  Er þetta ekki bundið í kjarasamning ég bara spyr?
  4. Starfsfólk sem býr að reynslu úr sambærilegum störfum úr öðrum sveitarfélögum eða ríki mun frá og með 1.nóvember fá þá reynslu metna inn í kjör sín hjá Reykjavíkurborg. Fyrir mig persónulega að ef ég skipti um skólastig fæ ég enn hærri laun á leikskóla heldur en í grunnskóla þar sem mín 18 ár í kennslu verða að fullu metin en ekki 10 eins og er í dag. Vei.
  5. Foreldri mun fá forgang fyrir börn sín á frístundaheimili og/eða leikskóla á meðan það starfar á þessum stofnunum. Þetta er jákvætt fyrir fólk með ung börn en gagnast ekki nema hluta af kennurum í grunnskólum þeir eru í meirihluta yfir 40 ára með eldir börn.

Auk þessa er kveðið á um ýmsar frekari aðgerðir sem er m.a. ætlað að laða að starfsfólk úr hinum ýmsu þjóðfélagshópum, eins og úr röðum námsmanna og eldra fólks, og að gera starfsfólki sem ekki býðst full vinna, eða takmörkuð yfirvinna, kleift að auka við sig í starfi innan borgarinnar, ef það svo kýs.

Ekki getur þetta komið að góðum notum þegar vantar kennara, eldra fólk og námsmenn eru jú ágætir en með ekkert kennarapróf þá dugar það skammt.  Eða er það ekki stefna nýs meirihluta að reyna að laða til sín menntað fólk í kennslu heldur að ráða "gott" fólk úr hinum ýmsu þjófélagshópum.  Ekki líst mér á.  Allur vindur farinn úr blöðrunni og eftir sitjum við og glímum við mannekluna með okkar sniði.  Nokkrir búnir að segja upp, nokkrir á leið í fæðingarorlof, einn kominn á aldur, enginn sækir um og við hin sitjum eftir, nögum neglurnar, reynum að brosa framan í börn og foreldra og gerum uppkast af uppsagnarbréfi.

Lifið heil og skellum okkur í sund ..................ein

Rósa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga María

Já þetta bætir ekki ástandið og er erfitt sjá hver getur nýtt sér þetta ALLT!  Ég bíð nú ekki í ofvæni yfir úhlutun þessara aura...fer líklega eftir áhuga hvers og eins...skák og mát.

Inga María, 4.11.2007 kl. 16:17

2 identicon

Sæl Rósa
Ég er kennari í nágrannaskóla þínum, Engjaskóla, ég hef líka verið að blogga um þetta "gylliboðabréf" frá hinum frábæra Degi. Eftir því sem ég fer betur í gegnum þetta verð ég alltaf reiðari og reiðari. Heldur maðurinn virkilega að kennarar brosi hringinn og störf í grunnskólunum verði samkeppnishæfari við þessar aðgerðir?

Jóhanna (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 17:39

3 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Já stelpur það er spurning hvað hægt er að gera. Leggjum höfuð í bleyti og söndum svo saman.  Öðruvísi er þetta ekki hægt.

Rósa Harðardóttir, 6.11.2007 kl. 17:51

4 identicon

Það er náttúrlega út í hött að bjóða þetta sem bætt kjör. Þetta er ekki kjarabót nema fyrir þá sem nota nefnda staði oft og einir síns liðs. Við höfum ekkert að gera við þetta því pakkinn verður metinn til króna sem koma aldrei í budduna mína. Í næstu kjarasamningum verður þetta svo dregið fram og sett tekjumegin við strikið. Viljum við það?

Jóhanna I (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 19:15

5 identicon

Sæl Rósa

Ég er kennari við Ingunnarskóla og var að fá póstinn frá þér. Ég er búin að fá nóg, það bráðvantar fólk í mínum skóla. Í haust var þetta leyst með leiðbeinendum sem er ágætis fólk  en ekki kennarar og álagið er þannig að það þolir það enginn til lengdar. Ég er búin að fá nóg og ef launin mín hækka ekki umtalsvert í vor og við fáum ekki fleiri menntaða kennara til að kenna er ég farin. 

Hrund Gautadóttir (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 20:25

6 identicon

Sæl Rósa. Ég er líka kennari í Engjaskóla eins og Jóhanna. Sammála öllum sem hingað hafa ratað - en eitt til umhugsunar -  hverjir aðrir en kennarar myndu bíða í 7 til 8 mánuði með að segja upp starfinu sínu?

Elín A. Gunnars (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 20:43

7 identicon

Sæl Rósa

Mikið er ég sammála ykkur hér að ofan ... Hver aðrir en kennarar bíða með það að segja upp í 7-8 mánuði??? Bara af því það er svo vont fyrir blessuð börnin ef maður hættir og enginn tekur við !!!

Ég er heldur ekki að fara ein í húsdýragarðinn. Ég hringdi í ÍTR í morgun til að athuga hvort sonur minn fengi ekki forgangi inn í gæslu en svo er ekki !!! Hvað er þá átt við með "þessum stofnunum" í lið 5. Ég á e.t.v. að hafa hann með mér í skólann sem ég er að kenna í - ég veit ekki!!

Líney (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 20:58

8 identicon

Sælar dömur

Ég er sko hjartanlega sammála ykkur sem hér hafið skrifað. Afhverju að bíða með að finna sér aðra vinnu - við verðum að fara að skilja það kennarar að þetta er bara vinnan okkar og ekki okkar ábyrgð þó það sé ekki hægt að manna okkar stöður.

Hversvegna eigum við ekki að skifta um starf þegar okkur langar til og finnst kominn tími til? Og ykkur að segja er sko nóg af spennandi störfum þarna úti, með háum launum, sveigjanlegum vinnutíma, almennilegum íþróttastyrk, árshátíðum í útlöndum, glæsilegum bónusum og möguleikum á launahækkun!

Eftir hverju eruð þið að bíða? Ég er á fullu að sækja um ;0) 

Gurrý (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 22:24

9 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Já það er rétt ég held að þeir sem er óánægðir í starfi hvort sem það eru vegna launa eða aðstæðna þá segðu þeir upp strax.  En við gerum það ekki.  Þess vegna erum við enn með svona lág laun er það ekki? Líney , þú þarf eflaust að vinna hjá á frístundaheimili til að fá forgang.

Ég hef fengið góð viðbrögð mörgum af þeim kennurum sem ég sendi bréf til í dag og nú hvet ég eindregið til þess að við svörum þessu ósmekklega bréfi frá borgarstjóra, hver fyrir sig. 

Rósa Harðardóttir, 6.11.2007 kl. 22:59

10 identicon

Ég er hjartanlega sammála. Í vor var ég að velta fyrir mér að skipta yfir í leikskóla. Þá munaði 40þúsundum í grunnlaun og hafa orðið einhverjar hækkanir síðan. Ég er með barn í leikskóla og ef ég gerðist leikskólastarfsmaður (starfsmaður Reykjavíkurborgar) fengi ég 10 þúsund krónur í hreinan afslátt fyrir barnið mitt í leikskóla. Eins og aðrir kennarar ákvað ég að halda áfram í grunnskólanum, ég er jú menntaður grunnskólakennari. En ef nú er verið að rétta úr kútnum með að allir starfsmenn Reykjavíkurborgar fái sömu fríðindi hvar er þá afslátturinn á leikskólagjöldum. Það er þó afsláttur sem skilar sér beint í budduna mína.

Hvernig væri að borga okkur sómasamleg laun og við getum sjálf ákveðið hvort við viljum kaupa okkur líkamsræktarkort, farið í sund, keypt okkur bókasafnskort, farið í Húsdýragarðinn o.s.frv. Að mínu mati er þetta lágkúra og verið að hvetja okkur til þess að halda þessum feluleik áfram. Allir glaðir í grunnskólanum og álag er eitthvað sem fyrirfinnst bara hjá hinum.

Helga Olsen (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 23:39

11 identicon

Komið sæl!

Alveg er ég sammála þessu. Ekki það, þetta eru góð fríðindi fyrir mig sem borgarstarfsmann - ef fríðindi væru eingöngu. Ekki hugsað sem gulrót fyrir mig til að halda áfram að vinna hjá borginni og hugsað sem eitthvað mótvægi við því álagi sem hvílir á starfsmönnum borgarinnar - grunnskólans í mínu tilfelli. Ég er kennari við Ingunnarskóla og er nýbyrjuð í fæðingarorlofi. Ég verð að segja að það þurfa allir að hafa áhyggjur af ástandinu. Þetta er skelfilegt. Fólk fæst ekki inn til starfa, kennarar taka að sér vel yfir 100% kennslu og fá aukatímana greidda í yfirvinnu - en skipulag og undirbúningur hvílir þá á öðrum sem ekki fá greidda yfirvinnu fyrir en sinna meirihluta vinnunnar. Það segir sig sjálft að kennari með 30-40 kennslstundir á viku hefur ekki tíma né orku til að sinna umsjónarmálum og öðru sem snýr að kennslunni.

Sem móðir er ég verulega kvíðin fyrir framhaldinu. Allt of margir góðir kennarar að flykkjast úr skólunum. Og þeir sem eftir eru - hve lengi endast þeir í þessu ástandi??? Það þarf að virkja alla í einhverjum róttækum aðgerðum. Foreldra sérstaklega. Ég mun sjá til hvernig samningar fara með hvort ég snúi aftur til kennslu eftir fæðingarorlof. Þetta er allt of mikið álag fyrir þessar 140þús krónur sem ég fékk útborgaðar nú um mánaðamótin - nei fyrirgefið, það voru 141 þús!

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 08:32

12 identicon

Heyr, heyr og frábært hjá þér Rósa! Ég var búin að reikna þetta út hjá mér (einhleypur kennari) og það sem ég fæ útúr þessum fríðindum er 6 þús króna hærri styrkur í líkamsrækt, sem auðvitað á eftir að taka skatt af :) Nema ég fari að henda mér ein og barnlaus í húsdýragarðinn :)  Ég setti þig í favorites og mun fylgjast með þér áfram.

kv. Kristjana

Kristjana (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 09:17

13 identicon

Sælt veri fólkið.

Til er fólk sem lætur taka sig í bakendann kvelds og morgna. Og sumir þess á milli. Sumum þykir það gaman öðrum illt. Grunnskólakennurum þykir það að aftur á móti skemmtilegt. Og nýtur þess í þokkabót.

Þátt þykir mér sorglegra  á þeim stundum , rétt áður en gera á  nýja kjarasamninga,  þegar koma upp svona umræður um að nú sé fjöldi fólks að segja sig úr stéttinni vegna niðurlægjandi launa. Og ills aðbúnaðar á vinnustað. Og álags sem heilbrigðasta fólk á sál og líkama er að kikna undan. Það er nokkuð ljóst að kennarastéttin er sundraðasta stétt veraldar. Hún getur ekki staðið saman í einu eða neinu. Nema kannski á kennararastofunum háværu og stundum í kennarateitum. Þar fara fram misvitrar umræður um eðli starfsins í hnotskurn sem oft enda með sárum kennarastofugráti

Hvers vegna er þetta svona? Hvers konar smásálir eruð þið kennarar? Haldið þið að borgarstjóri sem er alveg jafn spilltur og aðrir pólítíkusar eigi eftir að  troðfylla launaumslögin ykkar af öðru en kortum í þennan eða hinn garðinn, sundkortum þar sem þið hafið aðgang  að rennibraut og gufubaði sem kannski virkar ekki? Kannski fáið þið líka aðgang að Paintball á þriðjudagskvöldum.

Ég bið til æðri máttarvalda að Eiríkur formaður  segi af sér sem fyrst. Ég ætla að biðja til enn æðri máttarvalda að samninganefndin okkar leiti á önnur mið og komi hvergi nálægt samningagerð aftur. Nema kannski innan sinna eigin fjölskylda þar sem hægt er að semja um hvað á að vera í  kvöldmatinn. Kannski geta þeir samið um á hvaða sjónvarpsrás á að horfa þetta og hitt kvöldið. Enn varla meira.  Sem er reyndar flókið ferli í reynd.  Það verður aldrei samið með þessar „gungur“ við stjórnvölinn. Það erum bara við sjálf sem getum gert eitthvað að viti. Sem þrýstihópur. Staðið saman sem ein heild. En sá möguleiki er varla fyrir hendi því við erum smásálir, við erum hundar sem nögum af  öllum þeim beinum sem hent er að okkur.  Bein sem búið er að mergsjúa. Og sum kannski oftar en einu sinni.

Ég biðla þil grunnskólakennara og deildarstjóra:

Ef þið eruð að tala saman í litlum hópum eða stórum að nú sé nóg komið, segið þá upp störfum ykkar  á stundinni. Það er nóg af miklu betur launuðum störfum þarna úti og jafnvel skemmtilegri störfum.

Göngum út hið fyrsta……

Nema mikil einföldun og tvöföldun eigi sér í stað. Látum aldrei fara svona með okkur aftur. Eins og gert vað við okkur í síðustu kjarasamingum. ALDREI!! Þá verðum við að enn meira athlægi í þjóðfélaginu en við erum nú þegar…

Góðar stundir…

raggiörn (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 10:22

14 identicon

Ég heiti Harpa og ég er kennari. Ennþá!

Ég er sammála þeim sem hér hafa ritað um að ég sætti mig ekki við launin mín. Ég hef þó ákveðið að gefa nýrri borgarstjórn séns fram yfir samninga í vor. Ef launin hækka ekki verulega þá mun ég hætta. Mér þykir vænt um starfið mitt sem kennari og það verður sárt að skilja við það. Mér finnst við kennarar gefa röng skilaboð út í samfélagið með því að láta bjóða okkur þessi laun. Þess vegna þurfum við að segja upp. Ekki fara í verkfall heldur segja upp og standa við það!

Mér þykir hins vegar ekkert að því að borgarstjórn bjóði okkur upp á þjónustu sem við höfum ekki notið hingað til en aðrir starfsmenn borgarinnar hafa haft (starfsmenn ÍTR o.fl.). Mér þykir þetta hið besta mál þó ég líti alls ekki á þetta sem kjarabót

Harpa Rut Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 11:11

15 identicon

Frábært og löngu tímabært bréf sem þú sendir á okkur kennara í Reykjavík. Þetta eru víst allt einstaklingsbitlingar til okkar og mér þætti nú ekki ólíklegt að við ættum eftir að borga skatt af hverjum og einum sem við þiggjum, rétt eins og við höfum gert af styrknum til líkamsræktar.

Það er skömm að maður fái ekki launahækkun sem maður gæti ráðstafað að vild rétt eins og fólk á almennum vinnumarkaði fær. Hvað á ég að gera fullorðin manneskjan með að ráfa um Húsdýragarðinn í tíma og ótíma? Við ættum kannski að fjölmenna öll í Húsdýragarðinn, fylla hann af fullorðnu fólki, sem fer í eltingaleik í kastalanum og treður sér í bílana... svona rétt til að sýna þessum kjánum fram á fáránleikann í að deila þessum "snillihugmyndum" sínum út til okkar?

Sjálf hef ég kennt síðan 1997 og í haust bauðst mér deildarstjórastaða á leikskóla fyrir 70.000 kr hærri laun en ég hef fyrir jafnlangan vinnudag í grunnskólanum sem almennur bekkjarkennari með færri en 20 nemendur!!! Ég hef í allt of langan tíma kennt miklu meira en 100% stöðu til þess að skrimta í gegnum mitt reikningaflóð og tekið þátt í verkföllum og öðrum aðgerðum sem hafa ekki skilað manni neinu sem heitið getur.... alla vega ekki til að réttlæta vinnutapið. Kannski ættum við bara að fara senda börnin heim eins og þeir gera í leikskólanum þegar kennarar veikjast eða ef ekki tekst að ráða mannskap. Við erum alltaf að redda öllum hlutum og það er okkur til trafala í allri okkar endalausu baráttu. Ég horfi með kvíða til næsta vors og kvíðinn er ekki minni vegna þess að við erum alltaf með sama fólkið í fremstu víglínu að berjast fyrir okkur!!! Við þurfum að gera eitthvað áhrifaríkt í vetur, vera dugleg að tjá okkur rétt eins og þú ert að gera mín kæra, og það sem mesta vitið væri í að mínu mati... troða okkur inn í pólitík þar sem við getum haft raunveruleg áhrif. Það vantar alvöru menntafólk í fremstu raðir í alla flokka, fólk sem veit betur en að segja að við kennarar og leikskólakennarar (sem ég vil nú ekki meina að fái of há laun þó þeir fái hærri laun en við) séum að vinna umönnunarstörf! Ég á bara ekki til orð þegar þetta er sagt um starfið mitt... ég sem hélt að ég sinnti menntun.

Hvers virði eru börnin okkar eiginlega? Borgarstjórinn ætti nú að fara að huga að því hvort einhverjir kennarar verði eftir til að sinna menntun barnanna hans .... hvort einhverjir virkilega gleypi við tilboðum í Húsdýragarðinn eða öðru fáránlegu í þá veru!

Gulla (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 15:43

16 identicon

Eitt sem mig langaði kannski að bæta við eftir að hafa rennt aftur yfir önnur komment hér að ofan.... gefa nýrri borgarstjórn séns.... Þetta er enginn séns... ég veit ekki betur en þessi "rauði" litur sem nú heldur um stjórnartaumana í borginni hafi verið við völd í síðustu skipti sem við höfum reynt að semja um kaup okkar og kjör. Ekki gleyma því! Ég veit að auðvitað var alls kyns litur í gangi í sveitastjórnum víða um landið en sem höfuðborg hefur Reykjavík og stjórnin í henni ákveðna stöðu í þessum samningum. Ég hafði nú kannski örlitla trú og bjartsýni í mínu kvíðna hjarta meðan það leit út fyrir að við fengjum tækifæri til að semja við bláan meirihluta.

Sjálf er ég þar að auki sammála því að við séum orðin of stór fylking, kennarastéttin, og þurfum að semja við hvert sveitafélag í sínu lagi... þá loksins kemst samkeppnin að en ég held að einmitt það atriði, samkeppni, sé eitthvað sem við ættum að huga að nota sem vopn í okkar baráttu. Þegar sveitarfélögin þurfa að fara að berjast um þá fáu kennara sem hafa hug á og getu til að vera áfram í starfi sínu yrðu þá allt í einu eftirsóknarverðir og fengju kannski einhver tilboð til að velja úr. Eitt er ljóst að öll okkar fyrri vopn eru úrelt og hafa ekki skilað því sem vonast hefur verið til... við þurfum að grípa til nýrra ráða ef eitthvað á að gerast sem breytir kjörum okkar svo heitið getur.

Gulla (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 16:23

17 identicon

Sælir nú kollegar góðir.

Ekki hef ég samþykkt þá samninga sem við vinnum eftir, og ekki mun ég samþykkja neitt undir 280 þúsund í byrjunarlaun.  Hinsvegar tek ég því fagnandi að við fáum einhver fríðindi.  ÍTR sem er Íþrótta og tómstundaráð Reykjavíkurborgar, hafa látið sína starfsmenn fá frítt í sund í mörg ár.

En kæru kennarar, hvað finnst ykkur um að mæta á fundi hjá okkar stéttarfélagi og kjósa okkur nýja menn í samninganefnd?  Ég treysti ekki Eiríki og co, þið afsakið, Að vera alltaf með sömu menn. þrátt fyrir afleita útkomu í allri samnigagerð, og menn sem ekki skilja eða hafa til þess ráð og rænu að fræða okkur almennilega um út á hvað samningarnir ganga.  Við og þeir erum búin að semja alveg stórkostlega af okkur í síðustu tveimur samningum.

En, ég vil að það komi skýrt fram, að þótt að ég sé sex barna amma og ekkert af mínum barnabörnum búi á Íslandi, þá vil ég endilega´að íslensk kennarabörn, njóti forréttinda inn á leikskóla og við hvern leikskóla á að vera sjúkradeild, þannig að hægt sé að vista börnin þrátt fyrir kvef og hálsbólgu.

Gæti talið upp margt annað, en læt þetta duga og segi:  Ekki skrifa undir ónýta samninga.

Ingibjörg Ottesen (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 16:54

18 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Sælir nú kollegar góðir.

Ekki hef ég samþykkt þá samninga sem við vinnum eftir, og ekki mun ég samþykkja neitt undir 280 þúsund í byrjunarlaun.  Hinsvegar tek ég því fagnandi að við fáum einhver fríðindi.  ÍTR sem er Íþrótta og tómstundaráð Reykjavíkurborgar, hafa látið sína starfsmenn fá frítt í sund í mörg ár.

En kæru kennarar, hvað finnst ykkur um að mæta á fundi hjá okkar stéttarfélagi og kjósa okkur nýja menn í samninganefnd?  Ég treysti ekki Eiríki og co, þið afsakið, Að vera alltaf með sömu menn. þrátt fyrir afleita útkomu í allri samnigagerð, og menn sem ekki skilja eða hafa til þess ráð og rænu að fræða okkur almennilega um út á hvað samningarnir ganga.  Við og þeir erum búin að semja alveg stórkostlega af okkur í síðustu tveimur samningum.

En, ég vil að það komi skýrt fram, að þótt að ég sé sex barna amma og ekkert af mínum barnabörnum búi á Íslandi, þá vil ég endilega´að íslensk kennarabörn, njóti forréttinda inn á leikskóla og við hvern leikskóla á að vera sjúkradeild, þannig að hægt sé að vista börnin þrátt fyrir kvef og hálsbólgu.

Gæti talið upp margt annað, en læt þetta duga og segi:  Ekki skrifa undir ónýta samninga.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 7.11.2007 kl. 17:20

19 identicon

Gleðst alltaf þegar mín gamla stétt rís upp. En því miður hefur það gerst allt of oft að stéttin hefur koðnað niður aftur. Ég óttast það að enn einu sinni muni stefna í átök. Ég fer nú að yfirgefa vígvöllinn en eitt í lokin.... ég vildi gjarnan komast frítt í sund hér fyrir norðan mánuðurinn kostar mig 7 þúsund krónur. Munar um minna.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 20:16

20 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Bara svo það sé á hreinu!

Ný stjórn og samninganefnd var kosinn á aðalfundi FG 2005 eftir hina hörmulega atburði á haustmánuðum 2004. Þetta nýja fólk (ég þar á meðal) hefur verið að undirbúa sig síðan haustið 2005 undir komandi kjaraviðræður. Af hverju ætti að skipta þessu fólki út núna sem hefur enn ekki fengið tækifæri til að gera kjarasamning?

Þó svo að Eiríkur Jónsson sé formaður KÍ kemur hann ekki nálægt þessum undirbúningi né verður í komandi kjaraviðræðum.

Bara svo það sé á hreinu!

Sigurður Haukur Gíslason, 7.11.2007 kl. 23:28

21 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Takk Sigurður, ég vissi þetta ekki, enda yfirgaf ég stéttina 2001 og nýkomin inn aftur.  Eiríkur Jónsson kom í minn skóla og talaði sérstaklega fyrir samningunum  2000/2001 og síðan afber ég ekki að sjá hann né annað.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 8.11.2007 kl. 08:04

22 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Takk fyrir þetta Sigurður Haukur, gott að þetta kom fram.  Það virðist oft vera þannig að félagsmenn geri sér ekki grein fyrir hvernig þessu er háttað.  Þetta hljóti bara að vera Eiríkur sem beri ábyrgð á þessu og því þarf að koma honum frá.  Það er spurning hvort þurfi að efla tengsl félagsmanna við félagið sitt.

Rósa Harðardóttir, 8.11.2007 kl. 10:47

23 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Ég segi og skrifa, Eiríkur Jónsson kom hér í Réttarholtsskóla ásamt Ebbu Ólafsdóttur (minnir mig að hún heiti) og talaði hér af miklum móð og sannfæringarkrafti um að þetta væru mjög góðir samningar.

Ég tel að hann sem formaður, hafi átt að vita að svo væri ekki, við sömdum hryllilega af okkur. Þessvegna finnst mér að hann eigi að (henda inn handklæðinu) og einhver annar að taka við.  Gæti svo sannarlega tekið það að mér og myndi ég upplýsa land og lýð að á meðan aðrar stéttir hafa fengið kjarabætur og þá ekki síst alþingismennirnir okkar og fulltrúar í sveitafélögum hafa kennarar samið af sér við hvern samninginn á fætur öðrum, þrátt fyrir langvinn verkföll, sem skaðað hefur allt þjóðarbúið.  Kennararstéttin öll, hlýtur að skilja að  sökin liggur að stórum hluta hjá þeim sjálfum.  Og ef ekki Eiríkur Jónsson getur skilið að hann hafi ekki gagnast stéttinni sem skyldi, ætti hann að víkja meira en sjálfviljugur.  Bið afsökunar á myndinni af mér, en því miður á ég ekki aðra í tölvutæku formi.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 8.11.2007 kl. 14:18

24 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Ingibjörg! 

Ertu að skammast út í Eirík og Guðrúnu Ebbu fyrir hvernig þau kynntu samninginn fyrir sex árum síðan og þess vegna eigi Eiríkur að segja af sér núna? (Guðrún Ebba er löngu hætt)

Rósa!

Er það ekki sjálfsögð krafa að fólk með þriggja ára háskólanám kynni sér málin áður en það fer að gagnrýna allt og alla. Það hefur margoft komið fram, bæði á trúnaðarmannafundum og á almennum félagsfundum hvernig uppbygging á forystu FG er háttað. Það kom m.a. fram í þessu fréttabréfi hér sem sent var út til allra félagsmanna í febrúar sl.:

http://www.fgk.is/upload/3504-1af4379d65a76784cfc7f583cd8c20d6.PDF

Einnig má finna allar upplýsingar um stjórn FG hér:

http://www.fgk.is/web/?&OZON=Z3JvdXA9MjUxNg==

Mér finnst í góðu lagi að gagnrýna okkar forystu en hún verður að vera byggð á réttum forsendum.

Sigurður Haukur Gíslason, 8.11.2007 kl. 15:31

25 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Sæll Sigurður,

Ég hætti kennslu næstum pr. samstundis eftir samningana 2001.

Ég er ekki að skammast, aðeins að lýsa skoðun minni.  Mér finnst langlundargeð kennara með ólíkindum.  Ég er í þeirri stöðu að geta leyft mér að hafa lítil laun, en það þýðir ekki að mér finnist laun fyrir kennslu ásættanleg fyrir alla.  Eins get ég sagt þér að öll mín barnabörn búa erlendis, en ég tek eindrægna afstöðu með gjaldfríum leikskóla fyrir öll börn yfir tveggja ára, finnst jafnvel koma til greina að skólaskyldan færist niður í tveggja ára aldurinn.  Að sama skapi á að gera foreldrum það kleift að velja um það að vera hjá börnum sínum í tvö ár, eða lengja barnsburðarleyfið um helming, frá því sem nú er.

Þetta tel ég þjóðhagslega hagkvæmt. 

Varðandi Eirík, þá finnst mér hann þreyttur  og ekki starfi sínu vaxinn.  Ef formaður kynnir samning sem ótrúlega hagstæðan og ekki verði lengra gengið að sinni, og síðan reynist samningurinn óhagstæður í meira lagi, þá hvað?

Ég er sannfærð um að ég sjálf segði af mér.  Auðvitað vissi ég að Guðrún Ebba er hætt.  En að þú skulir verja þetta, segir meira um þig en mig, rétt eins og skoðun mín segir meira um mig en þig.

Af gefnu tilefni, þá vil ég endurtaka það að ég er að lýsa mínum skoðunum og veit að þær þurfa ekki endilega að endurspegla skoðanir annarra.  Og ég þvertek fyrir það, að ég sé að skammast.

Bið enn og aftur afsökunar á myndinni af mér, ég er ekki sú allra fríðasta. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 8.11.2007 kl. 18:17

26 Smámynd: Arndís Hilmarsdóttir

Mér finnst góður punktur sem Gulla setti inn hér að ofan. Ég held að við ættum að skoða hann svolítið betur. Það að sveitarfélögin hafi eitthvað um það að ráða hvernig kaup og kjör eru hjá hverju og einu sveitarfélagi kemur kannski í veg fyrir að það launungarmakk sem er í sumum sveitarfélögum varðandi laun og kjör. Það að veita fólki húsnæðishlunnindi, flutningarstyrk, árskort í sund eða hvaðeina sem á að virka sem launauppbætur, en eru það ekki. Þá er betra að hafa allt upp á borði svo við getum borið okkur saman og sótt eftir því sem betra er á allan hátt líka launalega. Þá verður kannski eftirsóknarvert að vera kennari og möguleiki á því að boðið sé í mann:)

Arndís Hilmarsdóttir, 9.11.2007 kl. 14:57

27 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Það getur verið lausnin að hvert sveitafélag semji við sína kennara en ég held að sem skipti öllu máli að ráðamenn þjóðarinn og fólkið í landinu viðurkenni og meti þá um leið mikilvægi þessa starfs meira heldur en gert er í dag. Og þá þarf að setja í þetta meiri peninga. Er breytt rekstarform kannski svarið?

Rósa Harðardóttir, 9.11.2007 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband