Jelgave

Eftir langan dag lentum við loks í Riga í Lettlandi mánudaginn 1. mars og þar beið okkar fríður hópur kennara.  Við upp í rútu og leiðin lá til Jelgave, fjórðu stærstu borgar Lettlands sem er um 40 km frá Riga.  Klukkan var um 6 þannig að allt var í myrkri og við sáum lítið á leiðinni.  Hótelið okkar er rétt við borgarmörkin, íþróttahótel með keilusal og íshokkísvelli.  Þetta er svona meira eins og farfuglaheimili en hótel, með engum mínibar eða hárblásara.  Eftir að hafa skellt töskum upp á herbergi var farið í mat, þriggja rétta matur salat, snitsel og búðingur, heitt hvítvín og svo í koju.  í dag þriðjudag þá vöknuðum við spræk klukkan 7  og í morgunmat, eitt egg og smá skinka, Jóhanna mín Ingimars hefði verið sátt. Svo upp í bus og í skólann. F´Fórum á sal og hlustuðum á frábæran skólakór, sáum dans og heyrðum píanóleik og einsöng.  En hér velja krakkarnir  eða foreldrar þeirra í hvernig bekk börnin eiga að vera frá því í 1. bekk.  Þau geta valið að vera í dansbekk eða í íþróttabekk og þá er hægt að velja keilu, sund eða skauta.  Þá  tók við heimsókn í tíma og við Þuríður byrjuðum á því að fara í tíma í 1. bekk þar sem verið var að vinna þemavinnu um árstíðirnar.  Þetta var mjög skemmtilegt, kennarinn var virkur allan tímann og gaf nemendum allt sem hún átti.  Hún var með innlögn, deildi verkefnum, spurði spurninga, lét þau vinna í hópum, var með samlestur á texta sem nemandi hafði skrifa og hún varpaði upp á gagnvika töflu af bókvarpa. (En bókvarpar og gagnvirkar töflur eru í 12 kennslustofum hér), braut upp kennslustundina með leik, var með framsögn og allt gekk upp.  Eftir þetta var kaffi hjá okkur fyllt horn og möndlukaka, Takið endilega eftir því hvað við borðum mikið hér.  Eftir kaffi fórum við Svanur í tæknitíma en það var einhver misskilningur hjá okkur því þetta var svona samþætt verkefni þar sem 4 námsgreinar eru samþættar, stærðfræði, móðurmál, samfélagsfræði og náttúrfræði.  Þau voru að vinna með hafið og kennarinn studdist með kennsluleiðbeiningar í samþættingu þessara námsgreina.  

Hádegismaturinn var framreiddur í skólanum og að þessu sinni fengum við snitsel með súrum gúrkum og uppstúf.  Búðingur í eftirmat.  Eftir hádegið var farið í heimsókn í Höll Jelgave.  Byrjað var að byggja þessa höll árið 1738 og þá sem heimili Hertogans af Kúrland og var meistarastykki rússneska arkitektsins Rastrelli. Þessi höll er stærsta minnismerki um arkitektúr í Eystrasaltsríkjunum. Við sáum þarna litið safn, fórum í kjallarann sem geymir gamlar líkkistur og  búninga.  Við enduðum á því að heyra kynningu á landbúnaðarháskólanum í Jelgave sem nú er staðsettur í skólanum. 

Eftir þetta fórum við aftur upp í skóla.  Þar hittum við aðstoðarborgarstjórann og hann sagði okkur allt sem við þurfum að vita um Jelgave. Eins og áður sagði er þetta fjórða stærsta borg Lettlands og hér búa um 66.000 manns.  Hér eru 27 skólastofnanir, grunnskólar, leiksólar, unglingaskólar og listaskóla.  Þeir leggja mikið upp úr menntun og hafa undanfarið fjárfest í menntun eins og Finnar.  Hér leggja þeir áherslu á íþróttir og listgreinar og geta nemendur valið og fengið það metið inn í skólann.  Hér mæta margir nemendur á íþróttaæfingu kl. 8 og svo í skóla þar á eftir en heima á Ísland þurfa margir krakka sem eru farnir að æfa á miklu krafti að mæta á æfingar kl. 6 og svo í skólann kl. 8. 

 

Eftir að hafa farið á kaffihús og fengið tertusneið, snittur og ávexti var frjáls tími til að skoða sig um í bænum.  Við Millý, Mollý og Mandý og Svanur auðvitað  fórum í Moll.  Ekki var það spennandi eyðsla á tíma, ekkert sem freistaði og um kl. 18 sóttu bílsjórinn okkur.  Við fengum svo 15 mín til að gera okkur klár í kvöldmat.  Við borðuðum aftur á hótelinu, að þessu sinni svínakjöt í eplasósu og ís í eftirmat ásamt heitu hvítvíni. Ég er búin að fatta af hverju hvítvínið er heitt. Það er svo við drekkum minna.  Eftir matinn þá var stóra stundin runnin upp. Keilukeppni milli landanna.  Þetta var snilld. Við mössuðum þetta auðvitað, bara best.  

Lifið heil

Rósa 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband