Á skólinn að vera skemmtilegur?

Í nýjasta tímariti ADHD samtakanna er viðtal við Jón Gnarr sem mun vera einn frægasti ofvirki einstaklingurinn á Íslandi um þessar mundir.  Tímaritið en helgað fullorðnum einstaklingum með ADHD og eru viðtöl og greinar um hvað tekur við þegar einstaklingur með þessa greiningu verður fullorðinn.  Í flestum viðtölum við þessa einstaklinga er spurt um skólagöngu þeirra þar sem hún reynist oftar en ekki þrautaganga.  Jón Gnarr ræðir um sína skólagöngu sem var í opnum framsæknum Fossvogsskóla.  Hann upplifði skólann sem her þar sem kennd voru fög sem hann hafði ekki not fyrir og langaði ekkert til að læra eins og stærðfræði og ljóð.  Jón hefði viljað leika leikrit og fá að segja meira frá, hann hefði viljað fá tækifæri til sköpunar en ekki að læra ljóð eftir Tómas.  Jón er á móti skólaskyldu og trúir á einstaklingsfrelsið, hann vill hafa skólann þannig að krakkar ráði hvað þau læri.  En þótt Jón sé stjórnleysingi og sjái skólann svo langt frá því sem hann er í dag þá er spurning hvort ekki sé hægt að færa skólann nær þessari hugmynd.  Að gera skólann þannig að hann sé skemmtilegur.  Að nemendur fari í skólann með þá tilfinningu að það séu þeir sem fái eitthvað um það að segja hvað þeir séu að læra.  Að einstaklingsmiðaða námið sé að virka.  Að það sé nemendalýðræði í skólum.  Að skólar bjóði upp á valkerfi sem nær yfir annað en leik.  Að nám sé gert að leik og leikur að námi.  Ég er viss um að þó Jón Gnarr hafi ekki verið spenntur fyrir Tómasi Guðmundssyni í barnaskóla er ég viss um að hægt sé að kenna Tómas með því að nota aðferðir sem hafi hentað Jóni eins og leikræna tjáningu og sjónvarp.  Ég veit að svona er þetta í sumum skólum en of fáum og ég veit að þetta er svona í sumum tímum en of fáum.  Það eru nemendur eins og Jón Gnarr sem þrífast illa í "venjulegum" skóla og við erum stöðugt að leita að úrræðum fyrir þá nemendur, hvernig væri að nýta þann auð sem fellst í öllum nemendum og láta þá hafa áhrif á skipulag kennslunnar.  En höfum það að markmiði að allir nemendur fari heim að loknum skóladegi með bros á vör því það var skemmtilegt í skólanum, þá verður námið auðveldara.

Lifið heil

Rósa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég held nú reyndar að skólinn eigi ekki að þurfa að vera leiðinlegur- mér finnst líka vera munur á hvort börnum sé skemmt í skóla eða hvort að þau njóta þess svo að nema að lífið virðist vera skemmtilegra þar þess vegna. Ég held líka að skólar þurfi að þróast - ég var svo heppin að vera Fjölbraut í Breiðholti á fyrstu starfsárum þess skóla, ég fékk svolítið að valsa um námslega og taka fög sem höfðuðu til mín, auðvitað varð ég líka að taka ýmis skyldufög - af því að ég vildi klára með stúdentsprófi. Annars hefði ég sjálfsagt sloppið við þau. Af því sem mér skilst er búið að takmarka þetta frelsi sem við höfðum á upphafsárunum mikið - mér finnst það miður- held nefnilega að skólinn eins og hann var byggður upp þá hafi höfðað til margra sem féllu ekki alveg að venjulega kerfinu, svona fólk eins og ég.  Við þurfum fjölbreytta skóla á öllum skólastigum.

Kristín Dýrfjörð, 10.7.2007 kl. 00:23

2 identicon

Skólinn á auðvitað að vera skemmtilegur...í þeirri merkingu að það sé gaman að fást við verkefnin sem þar eru í boði...allir geti skemmt sjálfum sér við að fræðast, skapa og eiga uppbyggjandi samskipti. Hvenær lærum við annars mest og best? Er það ekki þegar okkur finnst gaman og við "leikum" okkur með viðfangsefnin eftir mismunandi leiðum og erum ekki þvinguð til að læra það sem höfðar ekki til okkar? Spyrji hver sig.

Áslaug Ó. Harðardóttir (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband