Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Út úr bænum

Í dag er föstudagur og þótt veðurspáin sé ekkert sérstök þá eru landsmenn að gera felliblokkirnar sínar klárar fyrir útilegur helgarinnar.  Ég ætla hins vegar að vera heima um helgina og slappa af.  Læt ekki draga mig í útilegu nema nokkuð öruggt sé að veðrið verði gott.  Helst vildi ég gista á hóteli.  En ég brá mér út úr bænum í tvígang þessa viku.  Á mánudag fékk ég upphringingu frá góðri vinkonu sem bauð mér með í verslunarferð út úr bænum.  Já þetta var aldeilis skemmtileg ferð.  Um kl. 19 á mánudagskvöld þá þeystu 8 kellingar á hópferðarbíl austur fyrir fjall í búð sem heitir því skemmtilega nafni Sveitabúðin Sóley.  Þessi búð er á bænum Tungu í Gaulverjabæjarhreppi og Sóley húsfreyjan á bænum rekur búðina í gömlum bílskúr við bæinn.  Búðin minnir á danskar sveitabúðir og þarna er hægt að kaupa kerti, bolla, glös, munnþurrkur og margt fleira. Ef þú átt leið austu t.d á Stokkseyri þá mæli ég með því að þú skellir þér í búðina.  Eftir að hafa verslað heilmikið þá var haldið heim á leið en gert stutt stopp á Eyrarbakka og áð í gömlu húsi með tilheyrandi trakteringum. 

Seinni ferð mín úr bænum í vikunni var í gærkveldi þegar ég gerði mér ferð með vinkonum mínum úr leshringnum á Þingvelli í fimmtudagsgöngu.  En á Þingvöllum er boðið upp á fræðslugöngur á fimmtudagskvöldum í sumar og er efni hverrar göngu mismunandi.  Í gær var yfirskriftin "Glæpasviðið Þingvellir" og var það alþingiskonan Katrín Jakobsdóttir sem leiddi gönguna.  Þar fjallaði hún um sögusviðið Þingvelli í íslenskum glæðasögum og fjallaði einnig um þróun glæpasagna á Íslandi.  Katrín er skemmtilegur sögumaður og skörungur í allri framkomu þannig að unun var á að hlusta.  Eftir gönguna brugðum við stöllurnar okkur  á Valhöll þar sem ég eyddi einu sumri í den og fengum okkur heitt kakó.  Vel heppnað fimmtudagskvöld.

 

Lifið heil

Rósa í bænum


Kennaraskortur í haust?

Nú er sumarið í hámarki og kennarar og annað starfsfólk skóla í sumarfríi.  Skólastjórnendur fóru síðastir út í sumarið og eflaust margir með kvíðahnút í maganum.  Nú er góðæri í þjófélaginu og þegar svoleiðis ástand er þá hverfa margir kennarar til annarra starfa.  Síðustu samningar voru ekki hagstæðir þannig að margt hvetur kennara til þess að leita nýrra leiða.  Hnúturinn í maga skólastjórans verður þar þangað til komið er aftur til starfa eftir verslunarmannahelgi.  Þá þarf að hefjast handa þar sem frá var horfið í ráðningarmálum fyrir skólaárið 2007 - 2008.  Þegar farið er inn á heimasíður bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þá kemur í ljós að það vantar rúmlega 100 kennara á þessu svæði.  Þar af vantar um það bil 75 kennara í Reykjavík samkvæmt auglýsingum frá Menntasviði Reykjavíkur.  Hvað verður gert ef ekki fæst fólk með tilskilin réttindi til starfa?  Ekki getum við farið fram á að foreldrar haldi börnunum heima svo eins og einn dag í viku til þess að brúa þetta bil.  Eða getum við ráðið pólska verkamenn í djobbið eða er hægt að fjölga nemendum í bekkjunum og fækka kennslustundum.  Hvað finnst ykkur?  Verður þetta vandamál eða ekki? Gæti verið ráð að hækka launin? Ljóst er að þar sem tekst að ráða í allar stöður þá er það ekki gulltrygging fyrir því að valinn maður sé í hverju rúmi heldur aðeins að maður sé í hverju rúmi!!

Lifið heil

Rósa í sumarfríi


Atvinna óskast

Ágætu landsmenn

Ég er rétt rúmlega fertug kona og óska eftir vinnu.  Ég hef kennarapróf og 18 ára kennslureynslu.  Er hætt að eiga börn og nokkuð hraust eins og restin af fjölskyldunni.  Kann margt og það sem ég ekki kann er ég fljót að læra.  Veit margt og ef ég veit ekki þá leita ég bara eftir upplýsingum.  En er ég ekki í vinnu?  Jú ég er í vinnu sem ég er bara nokkuð ánægð með.  Ég er í krefjandi og skemmtilegu starfi  og á góða vinnufélaga.  Yfirmenn mínir eru skilningsríkir og mundu helst vilja allt fyrir mig gera en hvað er þá að.  Jú ég var að fá útborgað og var ekkert sérstaklega glöð.  Mín laun eru ekki trúnaðarmál og ég hef ekki verið beðin að þegja yfir þeim.  Ég fékk í útborguð laun nú í dag kr. 195.000.  Ég geri nú ekkert sérstaklega spennandi fyrir þá peninga.  Ég get borgað afborganir af húsnæðisláninu, símareikninginn, fótboltanámskeiðið og golfæfingarnar hjá syni mínum og síðan þarf ég að fá aðsoð með að borga visareikninginn.  En ég vinn hvort sem er ekkert í sumar er í endalausu fríi meðan aðrir þurfa að puða og púla og því get ég kannski fengið mér aukavinnu út í sjoppu.

  Ég nefndi að yfirmenn mínir vildu allt fyrir mig gera því ekki að biðja um hærri laun.  Við sem erum kennarar hjá Reykjavíkurborg getum því miður ekki farið fram á það.  Þetta eru launin miðað við mín próf og mína reynslu og nú þarf ég alvarlega að fara að hugsa minn gang.  Starfsævin er ekki hálfnuð þannig að ég gæti átt möguleika á öðrum vettvangi.  En eru aðrir kennara ánægðir því ekki heyrist mikið í þeim.  Nei það tel ég ekki vera og á í næstu skrifum skal ég segja ykkur frá því.

En endilega látið mig vita ef þið hafið hugmynd um skemmtilega vinnu með góðum launum

Lifið heil

Rósa raunamædda

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband