Skólastjórar áhyggjufullir

 

Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi ályktun frá fundi Skólastjórafélags Reykjavíkur sem haldinn var 4. apríl sl.:

Fundarmenn á félagsfundi Skólastjórafélags Reykjavíkur, sem haldinn var föstudaginn 4. apríl á Grand Hótel, hvetja stjórnendur Reykjavíkurborgar,samninganefnd Kennarasambands Íslands og launanefnd sveitarfélaga til að virða þau tímamörk sem sett voru í upphafi viðræðna og ljúka kjarasamningum kennara og atkvæðagreiðslu um þá fyrir 1. maí. Dragist samningagerð á langinn er hætta á að kennarar hverfi úr starfi með þeim afleiðingum að grunnskólar í Reykjavík verði ekki fullmannaðir næsta haust.

Síðustu helgar hafa verið fjölmargar auglýsingar um kennarastöður í Reykjavík.  Heyrst hefur að ekki hafa margir sýnt þeim áhuga.  Kennara, bæði þeir sem eru í starfi og þeir sem hugsanlega ætla aftur í kennslu halda að sér höndum og bíða eftir því að heyra hvernig launaliðurinn í þessum viðræðum verður.  Vonandi þurfum við ekki að bíða of lengi svo hægt sé að halda áfram með undirbúning fyrir næsta skólaár eða skila inn uppsagnarbréfi.Undecided

Lifið heil

Rósa raunamædda


Af kjaraviðræðum

Nýlega birtist í fjölmiðlun tilkynning frá samninganefnd KÍ að allt gengi vel.  Viðræður hafa staðið yfir og allt í lukkunnar velstandi.  Það er búið að ganga frá flestum þáttum og bara eftir að að ræða launaliðinn, eins og það sé eitthvað bara.  Í febrúar fór ég á kynningarfund með Ólafi Loftssyni formanni Félags grunnskólakennara og þar kom skýrt fram að ekki ætti að hrófla við neinu í þessum samningum öðru en laununum.  Hvað er það þá sem þeir hafa verið að ræða, gaman væri að vita. Kalli Björns sagði að allt hefði farið fram í mestu vinsemd.  En gaman hjá þeim.  Það verður örugglega ekki eins gaman þegar kemur að því að ræða laun en við bíðum spennt.

Lifið heil

Rósa 


Mammamamma

Fór á skemmtilega leiksýningu í gær, sem ég get mælt með.  Bauð dóttur minni með mér að sjá Mammamamma í Hafnarfjarðarleikhúsinu.  Bara skemmtileg, ekkert væmin og nokkuð sönn.  Það var tekið á þeim þáttum sem kona upplifir við það að ganga með barn, fæða það og ala á alla máta.  Þetta var einvala lið leikkvenna, Þórey Sigþórs og María Ellingsen, gamlir Árbæingar, frænkan Magnea Björk og Birgitta Birgis. Umgjörðin var heimilislegt, við fengum púða og ullarsokka til að okkur liði sem best og í lok sýningar var boðið upp á pönnsur.  Mæli með þessari sýningu fyrir allar mæður,konur, dætur..... Það voru tveir karlar sem sátu á næsta bekk og þegar það kom smá þögn í sýninguna snéri annar sér að hinum og sagði "skilur þú eitthvað í þessu? og hristi hausinn. Það ætti kannski að draga þá með svo þeir skilji þetta betur.

Af hverju kennari?

Í gegnum tíðina hef ég oft fengið þessa spurningu: hvað varð til þess að þú ákvaðst að verða kennari?  Mín saga er þessi.  Það var algjör tilviljun.  En svo er kannski ekkert algjör tilviljun eða hvað. Ég var ný orðin stúdent og vann í sjoppu, vissi ekkert hvað ég átti að gera, langaði til útlanda sem óper.  Sótti um tvær barnapíustöður og var hafnað.  Eitt laugardagskvöld í sjoppunni, þegar ekkert var að gera var ég að lesa sunnudagsmoggann, þá kemur fastakúnni inn og heyrir á mér að ég er að velta fyrir mér framtíðinni.  Hann spyr mig hvort mér hafi ekki dottið í hug að fara út á land að kenna það væru svo margir sem gerðu það.  Á mánudeginum byrja ég að hringja á nokkra staði og vita menn, ég gat valið úr kennarastörfum.  Þá voru góð ráð dýr, hvert átti ég borgarbarnið að fara.  Jú, ég vildi ekki fara á of lítinn stað, það yrði að vera bókasafn á staðnum og eitthvað um að vera.  Þá varð Sauðárkrókur fyrir valinu, ég hringdi í Björn í neðra og hann réð mig.  Þar var ég í eitt ár og samkennara mínir reyndu hvað þeir gátu að annað hvort halda mér á staðnum eða að forða mér frá því að gerast kennari.  Það tókst í bili.  Eftir árið fór ég suður, skrapp til Jamaica í 2 mánuði og fór svo að vinna í banka.  Þegar ég hafði unnið eitt ár í bankanum þá fannst mér að ég þyrfti að mennta mig, þá stóð ég frammi fyrir erfiðu vali.  Hvort ætti ég að fara í viðskiptafræðina sem ég ætlaði alltaf að fara í eða í Kennó.  Ég valdi það Kennó því mér fannst kennslan skemmtilegasta vinna sem ég hafði unnið. Valdi ég vitlaust, því get ég ekki svarað.  En ég held líka að þeir kennara sem ég hafði í grunnskóla hafi kannski haft áhrif á þetta val.  Ég var frekar heppin með kennara.  Fyrst skal nefna Valgerði Hrólfsdóttur, hún kenndi mér í 2. bekk, svo falleg og góð, síðan var það Hanna Kristín Stefánsdóttir.  Hún var frumkvöðull og kennslan hennar var framsækin og fjölbreytt.  Í unglingadeild var það Ingvar, hann var harður kall, sem lét okkur hlýða, gekk á höndum til að fanga athygli okkar, hélt uppi aga en umfram allt góður kennari, ég var dugleg í stærðfræði á þessum árum.  Ég held að þessar fyrirmyndir hafi haft áhrif á val mitt þó ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en seinna.

Lifið heil

Rósa  


Hvað eru mannsæmandi laun?

Jæja þarna er það komið. Kennara vilja verulega kjarabætur í komandi samningum og er þetta ekki fjarri lagi.  En þar sést líka hvað grunnskólakennara hafa dregist aftur úr og það er skömm af því miðað við það álag sem nú hvílir á herðum kennara.  Aukin önnur störf, sum hver ansi illa skilgreind en verða að vinnast. Aukin samskipti við annað starfsfólk s.s þroskaþjálfa, stuðningsfulltrúa og fleiri sem koma að meðal bekkjardeild.  Það þarf að breyta starfheitum eða fara að viðurkenna hve ábyrgð umsjónakennarans er mikil og borga í samræmi við það.  Ég segði já við þessu boði.  Veit samt að þetta er ekki boð.Errm Þar sem þessi könnun er gerð fyrir kÍ hafa niðurstöður hennar eflaust ratað inn á þeirra borð og nú bíðum við spennt eftir fréttum þaðan.En hvernig stendur á því að við höfum dregist svona aftur úr? 

Lifið heil

Rósa vongóða Wizard


mbl.is Kennarar telja að laun eigi að hækka um 24-46%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaþing

Þetta er frábært.  Frábært að fá jákvæðar fréttir úr skólalífinu.  Barnaþingið er skemmtileg tilbreyting fyrir nemendur og kennara og brýtur upp hefðbundið skólastarf.  Þarna fá nemendur að láta álit sitt í ljós á sínu nánasta umhverfi.  Umhverfi og úrbætur í séð með augum þeirra.  Þau finna að hlustað er á þau og vonandi verður tekið tillit til einhverra óska.  Ég fylgdist með nemendum í mínum skóla þegar undirbúningsferlið fór fram.  Gleðin og áhuginn sem skein úr augum þeirra - ja þið hefðuð átt að sjá það!! þó meira rót komi á skólastarfið þá er það þess virði.  Þarna gátu nemendur nýtt sér það sem þau höfðu lært í skólanum og vonandi séð tilganginn.

Meira svona.

Lifið heil

Rósa  


mbl.is Minni sóðaskap, veggjakrot og stríðni - meira af kakósúpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæðar fréttir af skólamálum

Það kemur stundum fyrir að fluttar eru jákvæðar fréttir af skólamálum í fjölmiðlum.  Helst er það í lok fréttatíma sjónvarpsins, kannski svona tvisvar í mánuði. Of sjaldan.  Í blöðunum er þetta einu sinni í viku ef vel gengur.  Þetta þarf að laga. Vinkona mín, kennaramenntuð býr í Danmörku og tók strax eftir því þegar hún flutti út að þessu var öðruvísi farið þar.  Það er mikið um jákvæðar fréttir á sjónvarpsstöðvunum  og í blöðum frá skólastarfi.  Ekki endilega þegar vorið er komið eða þegar einhver skólinn á afmæli heldur hvenær sem er.  Þetta gefur fólki aðra sýn á skólann, byggir upp jákvætt viðhorf til skólamála og kennara.  Þetta skiptir okkur öll máli því grunnmenntun í landinu er undirstaða undir farsæld og velmegun.  Við þurfum að fá fjölmiðla í lið með okkur  - því allir ættu að vera í sama liði og við - til að hefja skólastarfið til vegs og virðinga á ný.  Hjálpumst að benda á og segja frá jákvæðum hlutum í skólastarfinu smátt og smátt hefur það áhrif til lengri tíma. 

Lifið heil

Rósa  


Mótmæli

Mér hefur alltaf þótt Hjálmar Sveinsson rithöfundur og fjölmiðlamaður notalegur, þekki hann ekkert, hef aldrei hitt hann en finnst gott að hlusta á hann.  Ég hlustaði á hann á leiðinni heim úr vinnu í dag og ekki var það verra.  Hann fékk auka prik.  Hann var í viðtali á síðdegisútvarpi Rásar 2 og verið var að ræða mótmæli.  Hann gaf ekki mikið fyrir þessi mótmæli í bílstjórum og fannst þeir geta fengið sér minni jeppa.  En hann velti því fyrir sér hvað Íslendingar væru einkennilegir mótmælendur.  Hér á landi er matarverð hærri en í öðrum löndum og enginn mótmælir, við verslum bara meira.  Og kennaraverkfallið stóð í margar vikur og foreldrar og aðrir landsmenn mótmæltu lítið  heldur reyndu bara að redda málunum.  Hvort er nú mikilvægara að geta keypt ódýrara bensín á fína jeppann eða að geta sent barnið þitt í skólann þar sem það fær sómasamlega kennslu hjá ánægðum kennurum og þegar það kemur heim fær að eitthvað gott og hollt að borða. Áherslur hjá okkur er kolrangar. Af hverju tóku landsmenn ekki þátt í baráttu grunnskólakennara og mótmæltu hressilega.  Af hverju mótmælum við ekki háu matarverði?

Lifið heil

Rósa  


Kennarar verða fyrir ofbeldi

Var fyrirsögn á lítilli frétt í Mogganum í gær.  En þar segir að kennarar í grunnskólum í Kaupmannahöfn verða fyrir miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi við vinnu sína. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu segir í frétt frá BT. Ástandið er mjög alvarlegt og því miður hafa skólayfirvöld látið hjá líða að tilkynna árásir til þess að skólinn falli ekki í áliti.  Þessar árásir eru margvíslegar, högg, spörk, bit, kverkatak og andlegt ofbeldi. Ástæðan er sögð sú að félagslega kerfið hefur brugðist og börnum með hegðunarvanmál sé ekki nægilega sinnt.  En hvernig er þetta hér á landi.  Við fylgjum nágrannaþjóðum oft eftir í skólamálum eins og félagslegum málum.  Hvernig er tilkynningaskyldan hér og erum við að tilkynna þau mál sem koma upp.  Erum við að sigla í sama far og Danir og ef svo er getum við þá lært af reynslu þeirra.  Getum við ekki verið sammála um að erfið hegðun nemenda sé meiri nú síðustu ár og ekki er félagslega kerfið og þau úrræði  hjá okkur nógu góð.  Margra mánaða bið er eftir greiningum og inngrip barnaverndaryfirvalda eru sein og oft á tíðum gagnslítil.  Of fá úrræði eru í dag fyrir nemendur með hegðunarvandamál og kennarar oft máttlitlir til að takast á við erfiða hegðun.  Þekkingin er ekki til staðar í skólum og sálfræðiaðstoð af skornum skammti.  Sérdeildir hafa verið lagðar niður í skjóli einstaklingsmiðaðs náms og áhrifin eru að koma í ljós.  Getur verið að erfið hegðun nemenda  og úrræðaleysi í þeirra málum flýti fyrir útbrennslu kennara? Ég geri mér grein fyrir að margir þættir ráða því að hegðunarvandamál eru fleiri en þau voru og að oft megi gera betur með þeirri þekkingu og reynslu sem er til staðar á hverjum stað en hitt er staðreynd að þegar ég hitti kennara sem er búin að kenna álíka lengi og ég er hefur enn möguleika á að skipta um starf, hefur jafnvel hætt að kenna þá er þetta viðkvæðið - launin eru ömurleg og þetta er orðin svo erfið vinna með öllum þessum hegðunarvandamálum og úrræðaleysi- ég nenni þessu bara ekki.  Þessu verður að breyta svo öllum líði vel í skólanum, bæði starfsmönnum og nemendum án þess náum við ekki árangri.

Lifið heil

Rósa á róli 


Ferming

Jæja þá getur lífið haldið áfram. Nú er komið tímabilið eftir fermingu.  Litli strákurinn orðinn stór, og allir í fjölskyldunni fermdir.  Litla barnið fermdist í gær og haldin var veisla heima hjá Rúnu ömmu með hnallþórum og tilheyrandi. Allir lögðust á eitt við að gera þennan dag eftirminnilegan og það tókst nokkuð vel.  Á hreint frábæra fjölskyldu og vini sem ég stend í þakkarskuld við.  Er enn að úða í mig veisluföngin. Gestirnir glaðir og kátir og mikið var gaman að sjá vini fermingardrengsins, allir nýfermdir í jakkafötum svo kurteisir og flottir.  Glaðastur var samt drengurinn sem stóð sig eins og hetja en er eflaust feginn að allt er yfirstaðir. Takk öll og Moli minn til hamingju með daginn. Flottur

Lifið heil

Rósa þreytta 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband